Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:10:05 (80)

2001-10-04 14:10:05# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vék að því deiluefni sem uppi hefur verið hér og kom upp snemma í morgun um forsendur frv. með tilliti til þjóðhagsáætlunar. Ég verð að segja að hann gerði það öllu málefnalegar en flokksformaður hans, sem fór hér mikinn eins og kunnugt er. En hv. síðasti ræðumaður gerði þetta af prúðmennsku og málefnalega. Hann sagði reyndar að niðurstaðan úr þessu væri sú, sem ég hef auðvitað sagt, að þetta skiptir ekki máli tekjulega fyrir ríkissjóð. Ef eitthvað er þá hallar á ríkissjóð í forsendum fjmrn.

Hann spurði líka: Er þetta í fyrsta skipti sem einhverju munar á forsendum ráðuneytisins og þjóðhagsáætlun? Er þetta einsdæmi? Nei, þetta er ekki einsdæmi. Þetta er eiginlega eins dæmi og t.d. í fyrra þegar munur var á verðbólguforsendu þjóðhagsáætlunar og fjmrn. Með öðrum orðum, þess finnast dæmi að ekki hafi verið nákvæmlega sömu tölur og sömu forsendur. Þó byggir þetta á sömu grunnupplýsingunum. Skatttekjurnar sem við notum eru sömu skatttekjurnar og Þjóðhagsstofnun notar þegar hún er að gera sína þjóðhagsáætlun. Það getur verið að einhver tímatöf eða eitthvað slíkt sé í því. En í grunninn eru þetta sömu reiknilíkönin.

En gáum að því, hvað sem þessu líður, að áður en þetta frv. verður afgreitt þá kemur ný spá. Í desember verður þetta allt reiknað upp á nýtt í ljósi þeirra forsendna sem þá liggja fyrir. Það er eðlilegt að nota, eins og þingmaðurinn sagði, jafnan það sem nýjast er. Það er ekki hægt að taka inn nýtt þegar búið er að loka talnagrunninum. En í desember þegar við klárum þetta mál þá erum við væntanlega komin með nýjar og betri upplýsingar.