Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:53:10 (94)

2001-10-04 14:53:10# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var að spyrja hæstv. heilbrrh. um, sem er afar mikilvægt og við fórum í gegnum það á síðasta þingi, hvort hann telji að grunnlífeyrir og tekjutrygging öryrkja og ellilífeyrisþega sé í samræmi við þau lagaákvæði sem Alþingi hefur samþykkt, þ.e. að lífeyrisgreiðslur haldist í hendur við launavísitölu? Telur hann að með því framlagi sem sett er hér í fjárlagafrv. fyrir næsta ár sé við það staðið? Það er afar mikilvægt að fá það fram.

Ég spyr líka, af því að hæstv. heilbrrh. þarf að skera niður um nokkur hundruð milljónir í málaflokki sínum: Getur hann sagt það hér og nú að hann muni ekki auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu? Getur hæstv. ráðherra staðið hér og sagt það við fólk að hann muni ekki auka greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og þar verði ekki skorin niður þjónusta frekar en orðið er?

Ég held að það sé afar mikilvægt að fólk verði fullvissað um að svo verði ekki gert. Þegar hefur nóg verið að gert með þeim hækkunum sem urðu á þessari þjónustu í sumar.