Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 14:56:04 (96)

2001-10-04 14:56:04# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að miðað við svör hæstv. heilbrrh. megi notendur heilbrigðisþjónustunnar óttast um sinn hag. Hæstv. ráðherra treystir sér ekki til þess að taka af skarið um að hann muni ekki auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni eins og gert var í sumar. Það kemur á óvart að hæstv. ráðherra geti ekki tekið af skarið með það hvort hann muni standa í ístaðinu eða hvort þjónustugjöld verði hækkuð.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann að skoða þann möguleika? Það liggur þá fyrir ef hann er að skoða þann möguleika. Mér finnst hins vegar afar erfitt að skilja við 1. umr. fjárlaga með nokkur hundruð millj. kr. gat sem hæstv. ráðherra á eftir að stoppa í til að mæta þeim niðurskurði sem boðaður er í málaflokki hans, án þess að við vitum neitt um hvað ráðherrann ætlar að gera. Hvernig ætlar ráðherrann að mæta 400 eða 500 millj. kr. niðurskurði? Eru það ekki 700 millj. með flötum niðurskurði sem ráðherrann á að brúa fram að lokaafgreiðslu fjárlaga? Ég spyr: Hverjar eru hugmyndir ráðherrans? Getur hann upplýst okkur um þær hugmyndir sem hann hefur til að mæta 700 millj. kr. niðurskurði, þ.e. með þeim flata niðurskurði sem hann á að taka á sig? Ég held það sé afar mikilvægt, herra forseti, að þessari umræðu ljúki ekki án þess að við fáum það fram.

Jafnframt er nauðsynlegt, miðað við svör ráðherrans, að draga fram lagaákvæði sem lífeyrisþegar treysta mjög á til að fá hækkun á kjörum sínum í samræmi við það sem aðrir fá í þjóðfélaginu. Það er alveg ljóst af orðum ráðherrans að hér er miðað við neysluvísitöluna en ekki við launabreytingar, eins og við flest hér inni höfum skilið það lagaákvæði sem Alþingi samþykkti. En ég spyr, herra forseti: Hvar á að bera niður í öllum þessum niðurskurði?