Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:39:28 (104)

2001-10-04 15:39:28# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ræddi um skuldir heimilanna. Það hafa fleiri gert í þessari umræðu. Ég tek undir áhyggjur þeirra þingmanna sem hafa rætt um skuldir heimilanna. Þær eru allt of miklar og hafa vaxið allt of hratt. Mér fannst hv. þm. hins vegar tala þannig að þetta væri ríkisstjórninni að kenna. Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að fólk hefði fjármagnað eyðsluna með lántökum vegna þes að ríkisstjórnin, að ég skildi, hefði logið góðærinu upp á fólk. Þetta eru nú ansi stór orð, ekki síst með tilliti til þess að kaupmáttur hefur aukist miklu meira á Íslandi en í nokkru öðru landi á undanförnum árum. Einstaklingarnir og heimilin hafa því haft meira fé til umráða vegna kaupmáttaraukningar. Það er svo önnur saga hvernig menn hafa farið með peningana sína og hversu frakkir þeir hafa verið í fjárfestingum en það er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni um það.

Ég spyr hv. þm: Er það virkilega meining hennar að ríkisvaldið, stóri bróðir og hæstv. fjmrh., fari að stjórna fjárfestingum heimilanna? Vill hv. þm. taka upp gamla kerfið þar sem þurfti leyfi stóra bróður til að kaupa sér bíl, sófasett eða eldhúsinnréttingu? Ég held að við verðum að treysta fólkinu sjálfu, heimilunum og forsvarsmönnum heimilanna í landinu, til að fara með sín fjármál. Hins vegar er það rétt að það þarf að hvetja fólk til aukins sparnaðar, það er mál málanna, en ekki að koma hér og kenna ríkisstjórninni um það sem miður hefur farið.

Þá nefndi hv. þm. að heimilin mundu blæða vegna fyrirhugaðra skattalækkana og fyrirhugaðra breytinga á tryggingagjaldinu. Það fannst mér alveg með ólíkindum. Staðreyndin er náttúrlega sú að skattalækkunin sem var boðuð í gær mun leiða til stóraukins ráðstöfunarfjár heimilanna. Skattarnir á einstaklingunum eru lækkaðir um milljarða. Tekjuskatturinn lækkar strax um áramótin, eignarskatturinn lækkar um helming, sérstaki eignarskatturinn verður afnuminn o.fl. Ég get ekki með nokkru lifandi móti skilið að það verði til að auka erfiðleika heimilanna í landinu.