Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:46:16 (108)

2001-10-04 15:46:16# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Nú er andsvörum lokið þannig að ég ætla ekki að fara að svara hv. þm. frekar en ég vil bara ítreka það að ég skil ekki þessa hundalógík sem hún hefur haldið hér fram. En sl. tíu ár hafa varaformenn Sjálfstfl. stýrt fjmrn., fyrst Friðrik Sophusson og síðan núv. hæstv. fjmrh. Geir Haarde og á þeim áratug hefur orðið gríðarleg breyting til hins betra í stjórn ríkisfjármálanna. Ég held að það sé hollt að rifja það aðeins upp hvernig ástandið var þegar ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. tók við völdum árið 1991 eftir áralanga stjórn vinstri flokkanna.

Góðæri undanfarinna ára hafði verið illa nýtt og þjóðin hafði hlaðið upp skuldum jafnt utan lands sem innan. Það var sjálfvirk þensla í ríkisútgjöldum og allt stefndi í strand. Góðærið var á enda, þorskstofninn á hraðri niðurleið, miklir erfiðleikar í landbúnaði og iðnaði og niðursveifla á mörkuðum stóriðjufyrirtækja þannig að rekstur þeirra var á heljarþröm. Atvinnulífinu hafði að hluta til verið haldið gangandi með fyrirgreiðslu úr sjóðum sem voru á hvínandi kúpunni og ríkissjóður varð að taka á sig milljarða króna vegna bágrar stöðu þessara sjóða. Stórkostlegur halli var á rekstri ríkissjóðs ár eftir ár og fráfarandi stjórn hafði gefist upp við að stjórna fjármálum ríkisins. Þetta var búið sem ný ríkisstjórn tók við árið 1991 og vandamálin sem nýr fjmrh. þurfti að glíma við voru gríðarleg.

Þessu til viðbótar gekk svo kröpp efnahagslægð yfir Evrópu sem olli okkur Íslendingum miklum erfiðleikum. Erfiðleikar fyrirtækja í höfuðatvinnuvegum okkar leiddu til þess að atvinnuleysi fór hratt vaxandi og forusta ASÍ spáði því að það stefndi í 20% atvinnuleysi. Ríkisstjórnin gerði það að einu höfuðviðfangsefni sínu að skapa atvinnuvegunum rekstrarskilyrði svo að þeir gætu þraukað þá erfiðleika sem við var að etja og væru í stakk búnir til nýrrar sóknar og aukinnar atvinnusköpunar. Ráðist var í verulegan niðurskurð á útgjöldum ríkisins í harðri andstöðu við stjórnarandstöðuna sem taldi að allt væri hægt að gera fyrir alla og lagði fram ótal tillögur þar að lútandi og hefur reyndar gert það árlega allar götur síðan. Má minna á fjárlagagerðina í fyrra þar sem stjórnarandstaðan lagði til milljarða í auknum ríkisútgjöldum.

Smátt og smátt fóru aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar að skila árangri. Halli ríkissjóðs fór minnkandi, atvinnulífið rétti úr kútnum og segja má að flest hafi verið á réttri leið síðan.

Herra forseti. Mér finnst rétt að rifja þetta upp við umræðu um fjárlagafrv. til að menn átti sig á hversu gífurleg umbreyting hefur orðið og árangur náðst á þeim áratug sem sjálfstæðismenn hafa haldið um stjórnartaumana í fjmrn. Það markmið sem var sett í upphafi, að snúa milljarða og jafnvel tugmilljarða halla ár eftir ár í afgang á fjárlögum, náðist smátt og smátt og á undanförnum árum hefur ríkissjóður skilað miklum afgangi sem hefur lækkað skuldir ríkisins og þar með vaxtakostnaðinn sem var allt of hár.

Í fjárlagafrv. næsta árs er gert ráð fyrir afgangi ríkissjóðs upp á 18,6 milljarða og lánsfjárafgangi upp á 41 milljarð. Ef einhver hefði spáð slíku fyrir áratug þá hefði hann verið álitinn galinn. En talandi um vexti þá verður að minnast á þá staðreynd að þau erlendu fyriræki sem meta lánshæfi einstakra ríkja setja Ísland í hóp með traustustu ríkjum heims sem er auðvitað mikil viðurkenning á góðri hagstjórn.

Það er auðvitað sérstök ástæða til að fagna því að bætt staða ríkissjóðs hefur gert það mögulegt að lækka skatta bæði einstaklinga og fyrirtækja. Tekjuskattur einstaklinga var lækkaður um fjögur prósentustig í þremur áföngum sem er einhver mesta skattalækkun sem um getur. Millifæranlegur skattafsláttur milli maka hefur verið stóraukinn og fasteignamati hefur verið breytt til stórhagræðis fyrir fólk á landsbyggðinni. Þá má minna á að barnabætur stórhækka í þremur áföngum á árunum 2001--2003.

Í gær voru kynnt áform ríkisstjórnarinnar um miklar skattalækkanir sem taka gildi á tveimur næstu árum. Þessar tillögur munu leiða til skattalækkunar á einstaklinga upp á 5,5 milljarða. Þetta er auðvitað gífurleg kjarabót fyrir landsmenn. Lækkun tekjuskatts, aflagning skattlagningar húsaleigubóta, hækkun fríeignarmarks í eignarskatti og frítekjumarka í sérstökum tekjuskatti er mikið fagnaðarefni en sérstaklega finnst mér ástæða til að fagna helmingslækkun eignarskatts og afnámi sérstaks eignarskatts. Eignarskatturinn er að mínu áliti allra skatta óréttlátastur vegna þess að eignir manna hafa yfirleitt orðið til vegna tekna sem þegar hefur verið greiddur skattur af.

Þá er í tillögum ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir verulegum skattalækkunum á fyrirtækin í landinu. Enginn vafi er á því að þær lækkanir munu styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og skapa forsendur fyrir frekari uppbyggingu þeirra. Það er reynsla okkar af skattalækkun á fyrirtækin í upphafi síðasta áratugar.

Lækkun skatta hefur verið og er stefna Sjálfstfl. öfugt við vinstri flokkana sem vilja hækka skatta og minni ég á brtt. þeirra við síðustu fjárlagagerð þar sem Samfylkingin lagði til skattahækkanir upp á tæpa 5 milljarða og Vinstri grænir voru liðlega hálfdrættingar og lögðu til skattahækkanir upp á 3 milljarða.

Ég hef áhyggjur af verulegri lækkun framlaga til Byggðastofnunar í þessu frv. Byggðastofnun fékk eins og aðrar ríkisstofnanir tilmæli um að lækka rekstrarútgjöld um 2% frá fyrra ári og stofnkostnað og viðhald um 7,5%. Stofnunin gerði tillögur um hvernig að þessari lækkun skyldi staðið. Samtals eru þetta 6 millj. og tillögur stofnunarinnar sem voru teknar gildar voru þær að 3,9 millj. færu í hagræðingu hjá stofnuninni sjálfri og 2,1 millj. hjá atvinnuráðgjöfum á landsbyggðinni. Þessi lækkun kemur fram í frv. en því til viðbótar hafa verið færðar 12,5 millj. frá Byggðastofnun til iðnrn. á lið sem kallast Íslenska upplýsingasamfélagið með þeirri skýringu að annars vegar sé það vegna rafræns samfélags og hagnýtrar upplýsingatækni á landsbyggðinni og hins vegar til að byggja gagnagrunn um málefni landsbyggðarinnar.

Ég verð að segja það, herra forseti, að ég skil ekki þá tilfærslu. Nú hefur Byggðastofnun verið flutt út á land. Þróunarsvið stofnunarinnar var flutt til Sauðárkróks fyrir þremur árum. Margir spáðu illa fyrir þeim flutningi og sögðu að ekki mundi takast að fá menntað fólk til starfa fyrir norðan en fyrrv. starfsmenn hættu allir störfum þegar að flutningi kom. Slíkar spár reyndust sem betur fer rangar og hálfur þriðji tugur umsókna barst um þessar átta stöður. Til starfa kom ágætisfólk með fjölbreytta menntun. Reynslan af þessum flutningi var það góð að ákveðið var að flytja aðra starfsemi stofnunarinnar til Sauðárkróks á þessu ári og nú er öll starfsemi Byggðastofnunar undir sama þaki fyrir norðan. Það fór eins með þann flutning að allir starfsmenn að einum undanskildum hættu störfum og þurfti því að ráða nýjan forstjóra og 12--15 starfsmenn aðra. Allt hefur þetta gengið ágætlega. Stofnunin fékk öflugan forstjóra og ágætt starfsfólk og starfsemin er komin á fulla ferð. Mér finnst það ekki góð skilaboð að það skuli eiga að færa verulega fjármuni frá Byggðastofnun til ráðuneytisins fyrsta árið sem stofnunin starfar að öllu leyti úti á landi. Ég tel eðlilegast að þau verkefni sem ráðuneytið ætlar að vinna fyrir þessar 12,5 millj. hefðu verið unnin af Byggðastofnun á Sauðárkróki og skil satt að segja ekki hvernig ráðuneyti byggðamála dettur í hug að standa svona að málum og treysti því að hæstv. iðnrh. sjái til þess að þessu verði breytt við meðferð fjárlagafrv. á Alþingi.

Það er að vísu réttilega tekið fram í fjárlagafrv. að nú sé unnið að nýrri byggðaáætlun fyrir árin 2002--2003 sem verður lögð fyrir Alþingi á haustþingi. Þar er einnig sagt að gert sé ráð fyrir að framlög breytist miðað við breyttar áherslur áætlunarinnar. Það er allt gott um það að segja en ég tel að í þessu fjárlagafrv. sem við erum að fjalla um núna fyrir næsta ár hefðum við frekar átt að efla Byggðastofnun en veikja. Byggðastofnun er ein þeirra stofnana sem margir tala illa um og oft sjáum við ályktanir um að leggja skuli hana niður. Þessar raddir koma oftast af svæði 101 í Reykjavík og eru settar fram af mikilli vanþekkingu, stundum af fólki sem finnst að allt sem er hinum megin við Elliðaár sé núll og nix.

Byggðaröskunin er eitt stærsta vandamál okkar Íslendinga og er ekki auðveld við að eiga. Mörg dæmi eru um að fólk flytji af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins þó að það hafi ágæta afkomu. Byggðastofnun hefur látið gera mjög ítarlegar kannanir á ástæðum þessara flutninga. Höfuðástæða brottflutningsins samkvæmt þeim könnunum er einhæfni atvinnulífsins og því hefur stofnunin stóreflt atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni sem er alfarið á forræði heimamanna og eru nú öflug atvinnuþróunarfélög í öllum landshlutum sem eru að gera ágæta hluti.

Það er skoðun mín að efla eigi starfsemi Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaganna. Þess vegna á ráðuneyti byggðamála ekki að vera að tína til sín fjármuni og verkefni frá stofnuninni.

Nú eru á fjárlögum fjórða árið í röð 300 millj. kr. til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni eins og gert var ráð fyrir í þeirri byggðaáætlun sem var samþykkt á Alþingi vorið 1999 og ég fagna því. Þessi eignarhaldsfélög eru í öllum landshlutum, missterk að vísu og hafa gert ágæta hluti í eflingu atvinnulífsins en því miður hefur ekki tekist að koma þessari starfsemi almennilega í gang í einstökum landshlutum þar sem ekki hefur tekist að útvega mótframlag heimamanna en þeir þurfa að leggja til 60% stofnfjár á móti 40% sem koma frá Byggðastofnun.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um fjárlagafrv. að sinni. Ég lýsi mikilli ánægju með þau markmið sem þar koma fram, að draga marktækt úr ríkisumsvifum og stuðla að bættri samkeppnisstöðu atvinnulífsins á alþjóðamarkaði og jafnframt ítreka ég mikla ánægju með að enn eitt árið verður ríkissjóður rekinn með verulegum afgangi jafnframt því sem skattar verða stórlækkaðir á einstaklingum og fyrirtækjum.