Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 15:59:53 (112)

2001-10-04 15:59:53# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég geri mér ágætlega grein fyrir stöðu ríkisfjármálanna og stöðu ríkissjóðs og ég veit að hv. þm. gerir það líka þó að hann tali í þessum tón. Staðreyndin er sú að við höfum rekið ríkissjóð ár eftir ár með miklum afgangi. Við höfum verið að greiða niður skuldir ríkisins í stórum stíl sem þýðir á móti að vaxtagreiðslur ríkisins lækka um milljarða. Kaupmáttur fólksins í landinu hefur aukist meira hér en í nokkru öðru landi eins og ég gat um í ræðu minni.

Varðandi það að skattbreytingarnar komi eitthvað sérstaklega illa niður á landsbyggðinni, þá þoli ég það bara satt að segja ekki þegar menn tala alltaf um atvinnulíf á landsbyggðinni eins og það sé annars flokks atvinnulíf. Af hverju talar hv. þm. um fyrirtækin á landsbyggðinni eins og þau séu einhver annars flokks fyrirtæki? Ég skil það ekki.