Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:06:10 (118)

2001-10-04 16:06:10# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef vakið athygli á, og ítrekað núna í þessari viku, afrekum vinstri grænna við fjárlagagerðina á síðasta ári þar sem þeir lögðu til að auka ríkisútgjöldin um 5,5 milljarða, að vísu bara 3,3 milljarða einir og sér en svo voru þeir með tillögur í félagi við Frjálslynda flokkinn upp á 2,2 milljarða, samtals 5,5 milljarða.

Þeir lögðu líka til skattahækkanir upp á 3 milljarða. Það er hins vegar rétt sem hv. þm. segir um Orkubú Vestfjarða. Þeir vildu gera þetta með þessum hætti. Ég vildi fara að ósk heimamanna. Fyrir iðnn. þingsins lá álit fulltrúa allra sveitarstjórna á Vestfjörðum að þetta yrði gert með þeim hætti sem gert var. Ég studdi heimamenn í því og stóð að því.