Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:11:31 (123)

2001-10-04 16:11:31# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Svo að það sé alveg á hreinu, þá er það útúrsnúningur að ég hafi sagt að þetta væri refsiaðgerð ríkisstjórnarinnar. Menn eiga ekki að hafa svona rangt eftir þeim sem eru að tala hérna, það er bara ómerkilegt.

Varðandi skattana geta menn lesið eins mikið og þeir vilja upp úr Mogganum. Mér kemur bara ekkert við hvað Mogginn er að segja. Ég var að benda á hvað hefur verið gert hér í skattamálum á undanförnum árum. Ég minnti á að tekjuskatturinn var lækkaður um 4 prósentustig í þremur áföngum sem er einhver mesta skattalækkun í sögunni. Ég minnti á að millifæranlegur skattafsláttur milli maka hefur verið stóraukinn og verður kominn á að fullu eftir eitt ár. Ég minnti á að fasteignamatinu var breytt sem þýðir stórkostlega lækkun á fasteignagjöldum á landsbyggðinni. Ég minnti á að barnabætur stórhækka núna ár eftir ár, um 2 milljarða á þremur árum. Og svo minnti ég náttúrlega á það sem er í tillögum ríkisstjórnarinnar frá því í gær þar sem enn á að stórlækka skatta, lækka eignarskattinn um helming, fella niður sérstaka eignarskattinn, tekjuskatturinn, staðgreiðslan lækkar um næstu áramót o.s.frv. Það er því sama hve mikið menn lesa upp úr Mogganum, þetta er stórkostlegur árangur í skattamálum.