Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:32:05 (126)

2001-10-04 16:32:05# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Til að taka af allan vafa um hvort einhver misskilningur sé á ferðum þá heyrði ég ekki betur en hv. þm. hafi haldið því fram að fjmrn. hefði haft ákveðna vitneskju fram yfir t.d. Þjóðhagsstofnun varðandi væntanlegar skattbreytingar sem voru síðan kynntar í gær. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. hefði sagt að þar af leiðandi væri eðlilegt að fjmrn. væri með aðrar niðurstöður en Þjóðhagsstofnun af þeirri ástæðu að þeir hefðu vitað af þessum fyrirhuguðu skattbreytingum og þess vegna væri eðlilegt að útkoma fjmrn. væri, að því er mér skildist, betri en hjá Þjóðhagsstofnun.

Því spyr ég, herra forseti, hv. þm. hvort hér hafi verið um misskilning að ræða hjá mér eða ekki og fullyrðingin hafi sem sagt verið sú að fjmrn. hafi haft vitneskju sem þeir þar af leiðandi hafa ekki látið fara yfir til Þjóðhagsstofnunar.