Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 16:57:06 (132)

2001-10-04 16:57:06# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þau svör sem hann gaf við þeim fyrirspurnum sem ég bar fram í ræðu minni fyrr á fundinum.

Varðandi hagræðinguna á Landspítalanum þá er, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, gert ráð fyrir að þeir hagræði eða spari 181 millj. En í ljósi þess að þeim var gert að spara 400 millj. í fyrra og þeim tókst aðeins að spara 100 millj. þá velti ég því fyrir mér og spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að það sé frekar unnt núna þegar róðurinn er orðinn enn erfiðari og 300 millj. kr. hali er þarna frá því í fyrra.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist bregðast við þeim vanda sem spítalinn stendur frammi fyrir varðandi útskriftarvandann. Það hefur verið kallað fráflæðivandi, en um 200 manns á spítalanum sem ættu að vera t.d. á hjúkrunarheimilum eða annars staðar teppa rúm á spítalanum. Í fjárlagafrv. get ég ekki séð að það sé viðbót nema þá á Sóltúni þar sem eru 92 pláss og síðan í Sunnuhlíð þar sem eru 15 pláss en það bíða á þriðja hundrað manns eftir hjúkrunarrýmum í brýnni þörf og til þess að geta sparað í heilbrigðisþjónustunni þarf að vera leið fyrir spítalann að koma sjúklingum á rétta staði.

Hvað varðar geðsviðið vil ég fagna því að það eigi að taka sérstaklega á þessum málflokki sem er ákaflega viðkvæmur eins og hæstv. ráðherra sagði. Það er verið að vinna alls kyns mjög mikilvæga vinnu víða í samfélaginu eins og hæstv. ráðherra nefndi, samanber Geysi, geðræktarverkefnið og sjálfsvígsverkefnið sem ráðherrann nefndi. En ég hefði gjarnan viljað fá svör við því hvernig ráðherra hyggst bregðast við útskriftarvandanum og síðan þetta með sparnaðinn hjá spítalanum.