Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:03:50 (135)

2001-10-04 17:03:50# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst örfá orð um hjúkrunarrýmin. Það er ljóst að sem betur fer er mikill áhugi hjá þeim stofnunum sem hafa byggt upp hjúkrunarrými á undanförnum árum, sjálfseignarstofnunum, að halda áfram þeirri uppbyggingu. Við höfum verið að vinna í því að Framkvæmdasjóður aldraðra geri áætlun um það hvernig hann kemur að henni. Ég vona því að ekki líði langur tími þangað til við getum tekið ákvörðun um framhaldið því að það er mjög brýnt. Það er rétt að biðlistinn er langur, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, og í heilbrigðisáætlun eru áform um að stytta þennan biðlista eins og hv. þm. veit, og þingheimur veit sem samþykkti heilbrigðisáætlun samhljóða í vor.

En hvað varðar mönnunina í heilbrigðisþjónustunni þá er þar mikið verkefni við að fást. Ég vildi að ég hefði einhverjar patentlausnir uppi í erminni. Hins vegar hafa ýmsir aðilar rætt þetta við mig. Ég hef t.d. nýlega átt fund um þetta mál með hjúkrunarfræðingum sem hafa áhuga á að fara í verkefni þessu tengt, þ.e. að kynna starfsstétt sína á jákvæðan hátt, og ráðuneytið er auðvitað tilbúið að styðja við slík verkefni. Reyndar var haldin ef ég man rétt --- það var fyrir mína tíð --- ráðstefna um mönnun í heilbrigðisþjónustu, og það er mjög brýnt að vinna í þessum málum. En auðvitað eru svo launamálin aftur sérstakur þáttur í þessu.