Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:06:13 (136)

2001-10-04 17:06:13# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til þess að inna hæstv. heilbrrh. eftir því hvað sé að gerast varðandi fjárveitingar og starf Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ. Á þeim fjárhagsvanda er ekki tekið í fjárlagafrv. heldur greint frá því að þar standi yfir samningar. Í fréttum undanfarið hefur verið gerð grein fyrir bæði verulega aukinni þörf á meðferð, og ég tala nú ekki um fyrirbyggjandi aðgerðir, en fyrst og fremst er það meðferð og síðan eftirmeðferð sem líður fyrir fjárskortinn. Sömuleiðis bitnar það á greiningu ákveðinna sjúkdóma hjá þeim sem þangað hafa leitað en hún hefur verið mikilvæg, bæði fyrir þá og jafnframt allt heilbrigðiskerfið, en sú þjónusta hefur verið felld niður vegna fjárskorts. Þessi starfsemi virðist því vera í miklum vanda. Heimilið sem hefur verið rekið á Staðarfelli í Dölum og hefur verið talið gegna afar mikilvægu hlutverki í þessu starfi hefur staðið lokað síðan í vor, og af fréttum að dæma er allt í óvissu um hvenær sú starfsemi hefst aftur.

Ég vildi gjarnan, herra forseti, heyra hvort hæstv. heilbrrh. gæti gefið svör um hvað þarna er að gerast og hvernig tekið verður á þeim mikla vanda sem er greinilega fyrir hendi.