Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:32:04 (142)

2001-10-04 17:32:04# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:32]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Öllum þeim sem fást við kjaramál er löngu kunnugt að aðalhvatinn, aðalhreyfiafl allra kjarasamninga og allra launakrafna, er það sem miðað er við, viðmiðin og aftur viðmiðin. Geri menn samning við einn um að hækka laun hans þá er um leið búið til nýtt réttlæti handa öllum öðrum sem hafa þá hækkun til viðmiðunar. Það kallar á nýtt réttlæti og þeir fara líka fram á kauphækkanir. Þetta fór ég yfir í fyrra og minnist þess að hafa þá rætt um það við hv. þm. Sverri Hermannsson.

Ég fagna því að hv. þm. hafi látið þau orð falla í umræðum um stefnuræðuna að við höfum hækkað laun of mikið miðað við aðrar þjóðir. Því miður var ég ekki viðstaddur þá umræðu en það er hárrétt hjá honum. Við Íslendingar höfum hækkað laun okkar meira en allar aðrar þjóðir. Það er vandamál okkar vegna þess að launin eru aðalþáttur allra útgjalda. Það eru sjötíu og eitthvað prósent af fastatekjum ríkisins, af fastatekjum þjóðfélagsins. Þetta skiptir öllu máli.

Þegar kreppir að í samfélaginu, þ.e. þegar hagvöxturinn dettur niður og verður nánast enginn eða mjög lítill þá ríður á að gera sér grein fyrir því að það verður að staldra við. Það verður að spyrna við gegn launakröfunum hvar sem er, hverjir sem bera þær fram og hvernig sem á stendur. Þetta er aðalatriði málsins. Þetta vildi ég sagt hafa. Ég held að ég hafi talað mjög skýrt hér í dag. Ég endurtek það enn og aftur: Við verðum að minnast þess að við getum ekki, undir þessum kringumstæðum, orðið við kröfum um hærri laun. Einhvers staðar verður að setja strikið þó að það sé sárt fyrir þá sem kunna að standa í launabaráttu. Við komumst ekki hjá því að setja ákveðin mörk.