Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:44:40 (144)

2001-10-04 17:44:40# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var þekkt þjóðarböl á Íslandi, þ.e. víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Við vorum mesta ógæfuþjóð Evrópu í stjórn okkar efnahagsmála. Það var margsýnt fram á það í gegnum áratugi að þeir sem báru minnst úr býtum í allri þeirri óstjórn voru þeir lægst launuðu í samfélaginu. Við sífellda hækkun launa þar sem menn elta hver annan og búa til nýtt réttlæti bera þeir tekjulægstu alltaf minnst úr býtum. Hinir tekjuhæstu koma betur út úr því. Um þetta urðum við sammála fyrir rúmlega 10 árum, að við gætum ekki gengið þennan veg lengur, við yrðum að stoppa við, yrðum að setja rautt strik, við yrðum að stoppa. Það var gert.

Ég var þá í forsvari fyrir vinnuveitendur. Við sömdum um nánast engar kauphækkanir til allra, það fékk enginn neitt. Við hverja var ég að semja? Við Alþýðusamband Íslands. Hverjir sömdu nákvæmlega eins? Það var BSRB. Hver var formaður þar? Sá sami og núna, hv. þm. Ögmundur Jónasson. Var ég óréttlátur í þeirri kröfugerð? Herra forseti, já, ég var það. Ég var mjög óréttlátur. Ég taldi nauðsynina slíka að það væri ekki hægt að komast hjá því að vera óréttlátur. Ég hef aldrei hælt mér af þeim samningum. Aðstæðurnar voru þannig að við gátum ekki gert neitt annað. Þjóðarbúsins vegna urðum við að komast út úr þessari vitleysu. Þjóðin varð að komast út úr vitleysunni öllum til hagsbóta, þeim tekjulægstu mest. Það sem ég segi núna um launamálin er nákvæmlega hið sama og þá.