Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:46:53 (145)

2001-10-04 17:46:53# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Út á þetta gekk mín gagnrýni, þ.e. að hverju sinni verður að taka mið af aðstæðum. Það sem á við á einum tíma á ekki við á öðrum tíma. Það sem á við um einn hóp á ekki við um annan hóp.

Ég vísaði til kröfugerðar Sjúkraliðafélags Íslands sem stendur í verkfallsbaráttu þar sem upphafslaun eru innan við 90 þús. kr. á mánuði og ég vísaði til þess að mikilvægt væri að koma til móts við kröfur þessa hóps, að mér fyndist það vera mikið réttlætismál.

Síðan er það annar handleggur að fyrir tíu árum eða um það bil þegar verðbólga var mæld hér í tveggja stafa tölum, um 30%, þá myndaðist um það víðtæk sátt í þjóðfélaginu að keyra hana niður með markvissu samstilltu átaki. Ég stóð heils hugar að baki því átaki og það tókst. En markmiðið var ekki að keyra samfélagið inn í frost til frambúðar. Á þessu átti að bygga kaupmáttaraukningu og að sjálfsögðu ætluðu menn að beita sér fyrir réttlæti varðandi tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Þess vegna verður að meta málin í því ljósi og við þurfum að skoða kröfur einstakra hópa með þessa réttlætishugsun í huga.