Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:48:36 (146)

2001-10-04 17:48:36# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:48]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrir 12 árum var hagvöxtur dauður á Íslandi. Við horfum fram á það í dag að hagvöxtur er nánast að verða enginn. Við erum á mjög hættulegri braut.

Auðvitað eru menn alltaf óréttlátir þegar þeir ræða um launamál. Ég veit ósköp vel að hjúkrunarfræðingar hafa hækkað mjög mikið í launum. Þeir hafa hækkað meira en sjúkraliðar. Það gefur sjúkraliðum nýtt réttlæti. Það er alveg hárrétt. Ég veit líka að ófaglærðir hafa hækkað minna en sjúkraliðar. Hvað ætla menn að gera svo? Jú, semja við eina stéttina til að búa til nýtt réttlæti handa öðrum. Og hvar ætla menn að enda? Sagan segir hvar við endum. Við endum hvergi, bara í vitleysu.

Auðvitað er hver sá sem leggur til að nú sé stoppað og nú sé hætt, alltaf óréttlátur. Auðvitað er það alltaf. Það er kannski ekki viturlegt af stjórnmálamanni að segja sannleikann. Það er kannski betra að tala um það sem allir vilja heyra, eitthvert eyrnakonfekt. En aðstæður í dag eru bara ekki þannig. Við verðum að segja sannleikann eins og hann er. Við komumst ekki hjá því að stoppa launahækkanir í samfélaginu. Við komumst ekki hjá því vegna þess að það er öllum til hagsbóta að stöðva þær. Það gæti ekki leitt til neins annars en enn þá meiri kaupmáttarhraps allra, ef við stoppum þær ekki. Svo geta menn deilt um það hvar á að stoppa og hvenær. Ætla menn að stoppa í dag? Ætla menn að bíða í þrjá mánuði eða þrjár vikur eða þrjú ár? Menn geta deilt um það. En það verður að segja söguna eins og hún er. Við getum ekki haldið áfram að hækka laun ríkisstarfsmanna. Við stöndum frammi fyrir því að samkeppnishæfni Íslands er í hættu. Við stöndum frammi fyrir veiku gengi. Við verðum að verja samkeppnisstöðu Íslands og íslenska gengið til að tryggja afkomu allrar þjóðarinnar.