Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 17:50:53 (147)

2001-10-04 17:50:53# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[17:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að menn eigi alltaf að segja sannleikann. Það kann hins vegar að orka tvímælis hversu viturlegt það er fyrir menn að opinbera skoðanir sínar, sérstaklega þegar þær eru á þá lund sem hér hefur verið lýst. Það er alltaf óréttlæti í umræðu um launamál, segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Ég held að þetta sé rangt hjá honum. Ég held að hægt sé að fjalla um launamál á réttlátan hátt og auðvitað á það að vera keppikefli okkar allra að stuðla að réttlátu launakerfi. Það er hins vegar annar handleggur að við kunnum að hafa mismunandi skoðanir á því í hverju þetta réttlæti er fólgið. Mér finnst harla undarlegt núna að ætla að stilla upp við vegg stétt láglaunafólks, sjúkraliðum sem eru að heyja sína kjarabaráttu með innan við 90 þús. kr. í byrjunarlaun og þegar til starfsaldurs er litið þá eru launin líka mjög lág, eins og talsmaður Sjálfstfl. sagði hér áðan, með því að í húfi væri gengið og þjóðarhagur. Það finnst mér bæði ranglátt og reyndar algerlega út í hött.