Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 18:05:37 (149)

2001-10-04 18:05:37# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er búið að ræða mikið um þetta fjárlagafrv. Ég ætla að halda mig við forsendur þess, sem breyttust raunar í gær þegar ríkisstjórnin tilkynnti breytingar á eignarsköttum og tekjusköttum og fleiri aðgerðir.

Ég ætla fyrst að taka undir það að ástæða er til að fagna því að skattur á húsaleigubætur eigi að falla niður. Ég lýsi líka yfir stuðningi mínum við að lækka eigi stimpilgjaldið og vona sannarlega að menn gangi þar heldur lengra en skemmra vegna þess að það er afar óréttlátur skattur. Það væri nær að afla tekna einhvers staðar annars staðar en með slíkum skatti.

Ég verð hins vegar að gagnrýna hækkunina á tryggingagjaldinu. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvernig á því stendur, þegar menn ætla að koma til liðs við atvinnulífið, að menn skuli snúa sér að því að skattleggja þann hluta atvinnulífsins sem kannski á erfiðast. Það eru þeir sem ekki borga tekjuskatta. Mér finnst þetta eiginlega á skjön við það sem menn segjast ætla sér með þessum aðgerðum almennt séð. Ég tel ástæðu til þess að menn fari vandlega yfir það hvar þetta kemur niður, á hvers konar fyrirtækjum, á hvers konar atvinnurekstri, og athugi hvort það sé ekki rétt að fara aðra leið en þessa.

En mig langar til að leiða umræðuna að dálitlu öðru. Nú hafa flestar efnahagsspár ríkisstjórnarinnar brugðist að undanförnu. Þær hafa reynst óskhyggja og stundum allt að því glópsleg bjartsýni. Hæstv. ráðherrar hafa reynt að tala gengi krónunnar upp en á sama tíma hefur hún fallið hraðar en nokkru sinni fyrr. Það eru engin dæmi um svo hratt gengisfall í sögu krónunnar síðan hún var felld með handafli fyrir 12--13 árum síðan. Ráðherrar hafa jafnframt reynt að tala verðbólguna niður en hún er enn þá meiri, rís enn þá hærra en hún hefur gert á áðurnefndu tímabili. Árangurinn af fórnum verkafólks, sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var að tala um hér áðan, er að fjúka út í veður og vind. Það er sannarlega kvíðaefni ef mönnum tekst ekki að stöðva þá þróun sem nú er í gangi.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum tekið niður girðingar og opnað fjármálakerfið fyrir frjálsum viðskiptum. Nú er þetta agnarsmáa hagkerfi hér orðið galopið og girðingalaust gagnvart öðrum gjaldmiðlum í kringum okkur og öðrum hagkerfum. Það er berskjaldað. Ýmsum reglum hefur einnig verið beytt hér heima og það hefur einnig haft áhrif. Stjórntækin sem menn nota í dag til að hafa áhrif á gengið eru afar veikburða. Fleiri og fleiri spyrja: Stenst þetta litla hagkerfi til lengdar, galopið, tengslin við stóru hagkerfin í kring? Og traustið á þessu hagkerfi er í verulega mikilli hættu.

Hluti þeirra ráðstafana sem hæstv. ríkisstjórn var að tilkynna í gær veldur mér umhugsun. Nú segir hæstv. ríkisstjórn: Við skulum leyfa íslenskum fyrirtækjum að gera upp reikninga sína, ársreikninga sína, og færa bókhald sitt í erlendri mynt.

Hvaða skilaboð eru þetta? Þetta eru skilaboð um að íslenska krónan sé afar döpur og lítils virði sé litið til framtíðarinnar. Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þetta hefur. Hefur þetta ekki þau áhrif að hinn mikli flótti frá íslensku krónunni haldi áfram og jafnvel á auknum hraða? Hvernig stendur á því að krónan hefur fallið undanfarna daga og undanfarnar vikur? Er einhver skynsamleg ástæða fyrir því? Ekki að mati þeirra sem stjórna hér. Þeir hafa aldeilis talað í aðrar áttir. Þeir hafa talað um að engin ástæða væri til þess að gengið félli meira en það hefur gert. En það hefur samt haldið áfram að falla. Seðlabankinn hefur tekið 25 milljarða lán til þess að kaupa íslenskar krónur, til að reyna að halda uppi gengi krónunnar.

Ég minni á að ýmsir fjármálaspekingar eru farnir að halda því fram opinberlega, ábyrgir menn í fjármálalífinu, að á þessum áratug muni íslenska krónan nánast hverfa út úr efnahagslífinu, a.m.k. hjá fyrirtækjum í landinu. Þegar þetta fer svo saman við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að menn skuli ekkert vera að nota íslenskar krónur, færa bara sitt bókhald í annarri mynt og gera ársreikninga í annarri mynt, eru þá ekki tvisvar tveir fjórir? Er þetta þá ekki bara búið, eru menn ekki að fara að kveðja íslensku krónuna?

Það er ekki þannig að ég sé mikill áhugamaður um að til framtíðar notum við íslenskar krónur. Ég tel reyndar að miðað við það sem gert hefur verið, með því að tengja okkur við efnahagslíf í kringum okkur, þá muni menn ekki taka skrefin aftur á bak. Menn munu ekki taka þau skref til baka sem stigin hafa verið til að opna hagkerfið. Af því leiðir að menn munu þurfa að skoða það mjög alvarlega hvort íslenska krónan muni ekki standast í þessu hagkerfi --- í tengslum við þau hagkerfi sem eru hér í kringum okkur.

En ég spyr hæstv. fjmrh., því hann hlýtur að hafa sest yfir þessi mál með sínum ráðgjöfum og spekingum: Er engin hætta á ferðum? Er engin hætta á því að þessi flótti frá íslensku krónunni verði slíkur að menn ráði ekki neitt við neitt? Hvernig hugsa menn sér að stjórna þessum hlutum ef atvinnulífið í landinu ætlar meira og meira að snúa sér yfir í aðrar myntir, yfir í evrur, yfir í dollara og yfir í sterlingspund? Fjármálaspekingarnir á Íslandi segja að það muni gerast á næstu árum.

Maður hlýtur því að spyrja: Er þá hætta á því að menn missi stjórn á því að halda gengi íslensku krónunnar í jafnvægi? Þetta hefur oft flögrað að mér upp á síðkastið þegar maður hefur séð að allar yfirlýsingar ráðamanna um gengismál hafa reynst vitleysa um langt skeið. Það hefði enginn getað ráðið af þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið út á undanförnum missirum og árum, að það gæti gerst sem gerst hefur í gengismálum. Sú þróun heldur áfram.

Ég held að ástæða sé til þess að menn skoði þetta vandlega og tali opinberlega um það. Það er í raun engin boðleg skýring --- miðað við það sem ráðamenn hafa sagt um þessa hluti --- á því að Seðlabankinn skuli þurfa að standa í þessum krónukaupum alla daga, eins og staðan er í dag. Ef íslensk fyrirtæki leggja á flótta frá íslensku krónunni þá duga sko ekki neinir 25 milljarðar til að halda uppi gengi hennar. Það er a.m.k. mín skoðun.

Það hefði verið ástæða til að ræða hér um ýmislegt. En ég vil fyrst og fremst koma þessu að vegna þess að mér finnst ástæða til að hæstv. fjmrh. fjalli svolítið um það hverju við megum eiga von á hvað þetta varðar og hvort hann telji enga hættu á ferðum. Ég veit að vísu að hæstv. fjmrh. er kannski ekki í stakk búinn til að setja einhverjar grýlur upp á veggina en hann gæti þó a.m.k. reynt að útskýra það fyrir þeim sem ekki skilur hvort þetta sé allt í lagi sem þarna er að gerast og hvaða áhrif það sem ríkisstjórnin er að gera með þessu muni hafa á stöðu krónunnar. Hann mætti gjarnan skýra hvort hann geri ráð fyrir að sú þróun sem er í gangi, þ.e. að Seðlabankinn kaupi krónur alla daga, verði svona áfram og hvað muni snúa þeirri þróun við?