Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 18:38:56 (155)

2001-10-04 18:38:56# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú eiginlega alveg ótrúlegt hvað hv. þm. teygir sig langt í umræðum hér um alla skapaða hluti til þess að draga hið margumrædda hjúkrunarheimili Sóltún inn í umræðuna. Áhugi hans (ÖJ: Má ekki ræða það?) og andstaða hans við það mál er slík að jafnvel þó þessi starfsemi sé nefnd í dæmaskyni í ræðu minni, sem hefði að sjálfsögðu verið algjör óþarfi að gera, þá efnir hann hér til umræðu um það í andsvari og vekur það mál allt upp á nýtt, hvernig þetta er fært í bókhaldi o.s.frv. (ÖJ: Má ekki ræða þetta?) Vitanlega má ræða þetta. Við skulum ræða þetta hvenær sem er. Við höfum oft gert það. En þetta er algjört aukaatriði í sambandi við frv. til fjárlaga á þessu ári og ræður mínar. Algjört aukaatriði. Þetta er algjört aukaatriði þegar verið er að tala um skuldir ríkissjóðs og samhengi þeirra við skuldir þjóðarbúsins. (ÖJ: Af hverju er ráðherrann svona reiður?)