Fjárlög 2002

Fimmtudaginn 04. október 2001, kl. 18:42:11 (157)

2001-10-04 18:42:11# 127. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Kjarninn í fyrirspurn þingmannsins er sá að hann vill fá að vita hvort ég telji að sú breyting sem við ráðgerum, sú breyting að heimila fyrirtækjum að gera ársreikning sinn og bókhald upp í erlendri mynt, hafi einhver framtíðaráhrif til þess að útrýma íslensku krónunni eða hafi þær afleiðingar að hún muni hverfa. Ég tel ekki að svo sé.

Hér voru nefndir til sögunnar ónafngreindir fjármálaspekúlantar eða fjármálaspekingar svokallaðir sem munu einhverjir hafa haft þá skoðun og hafa kannski enn að krónan muni hverfa einhvern tíma á næsta áratug. Ég er ekki sammála því. Tilgangurinn með þessari breytingu er ekki að ýta undir það. Alls ekki. Tilgangurinn með þessari breytingu er að gera þeim fyrirtækjum sem eru í sérstakri aðstöðu að því er varðar erlend viðskipti kleift að styrkja stöðu sína gagnvart erlendum samstarfsaðilum og gera þeim auðveldara fyrir í starfsemi sinni, í viðskiptum sínum. Slík ráðstöfun er til að gera þeim auðveldara og hagkvæmara að reka starfsemi sína. Markmiðið er nú ekkert flóknara en það. Á bak við það býr enginn dularfullur eða annarlegur tilgangur.

Hitt er svo auðvitað mjög mikilvæg og stór spurning óháð þessu: Hver verður framtíð krónunnar í breyttu gjaldmiðilsumhverfi sem við munum e.t.v. sjá fram á eftir einhver ár, t.d. í Evrópu? Það er nú ekki alveg á næstunni. Ég sé ekki fyrir mér að Bretar muni taka upp evruna. Danir hafa fellt það í atkvæðagreiðslu. Óvíst er hvað Svíar gera og svo er einnig með allar hinar þjóðirnar sem standa fyrir utan þetta.

En þannig er þetta hugsað. Ég tel að spurningin eigi í sjálfu sér fullan rétt á sér. Þetta er mjög stór og mikilvæg spurning en ég tel ekki þörf á að ræða hana í samhengi við þessa breytingu.