Fyrirkomulag ökuprófa

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:25:32 (177)

2001-10-08 15:25:32# 127. lþ. 5.1 fundur 44#B fyrirkomulag ökuprófa# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar kemur fram að fyrirhugað er að taka upp nýtt fyrirkomulag ökuprófa þannig að framkvæmd þeirra verði ekki lengur á hendi Umferðarráðs og mun þetta nýja fyrirkomulag leiða til þess að framlög til Umferðarráðs lækka um 46 millj. kr.

Því er eðlilegt að spurt sé: Á hverra vegum kemur þá framkvæmd ökuprófanna til með að verða eftir 1. jan. 2002, því að í fjárlagafrv. kemur fram að hún muni verða tekin úr höndum Umferðarráðs?

Hver eru rökin fyrir þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru?

Þá er einnig óhjákvæmilegt, herra forseti, að spyrja um hvernig þetta kemur niður á starfsmönnum sem inna þessi störf af hendi í dag. Koma þessar breytingar til með að leiða til fækkunar starfsfólks og kannski er ekki hvað síst mikilvægt að spyrja hvar á landinu eru þessi störf unnin í dag? Ef þau eru unnin úti á landi koma þau þá til með að halda áfram að vera úti á landi?

Að lokum er rétt að hafa nokkur orð um þá staðreynd að eftir talsverða gagnrýni á framkvæmd ökuprófa á níunda áratugnum hafa verið gerðar úrbætur á framkvæmdinni sem eflaust eiga sinn þátt í því að tjónum hjá nýliðum í akstri hefur fækkað umtalsvert á seinustu árum og það var sannarlega orðið tímabært að sjá þær háu tölur fara lækkandi.