Fyrirkomulag ökuprófa

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:32:11 (182)

2001-10-08 15:32:11# 127. lþ. 5.1 fundur 44#B fyrirkomulag ökuprófa# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég get ekki verið sammála hv. þm. um að ástæða sé til að tortryggja þessar breytingar vegna þess að það er ekkert endilega gefið að kennsla á vegum hins opinbera sé betri en kennsla á vegum einkaaðila. Ég vil benda á að fjölmargir ökuskólar eru reknir í landinu þannig að ég get ekki verið sammála henni um það.

Eins og ég sagði áðan eru þessar hugmyndir ekki nýjar af nálinni. Þær hafa áður verið ræddar og mönnum finnst rétt að prófa að fara þessa leið.

Ég vil líka ítreka að búið er að gera ótal margt til þess að tryggja betur umferðaröryggi í landinu og eins og ég sagði áðan þá mun ekki af veita. Ég vil leyfa mér að benda á alls konar átak sem hefur verið gert í umferðinni, svo sem herta löggæslu, sérstakt umferðarátak ríkislögreglustjóra og Vegagerðarinnar, lagabreytingar, og núna síðast í sumar breytingar á reglugerð sem hækka verulega sektir. Ótalmargt er því búið að gera í þessum efnum og ég get fullvissað hv. þm. um að haldið verður áfram á þeirri braut og einnig hvað snertir framkvæmd ökuprófa. Það verður fylgst vel með því máli.