Umferðarmál við Smáralind í Kópavogi

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:35:52 (184)

2001-10-08 15:35:52# 127. lþ. 5.1 fundur 45#B umferðarmál við Smáralind í Kópavogi# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn og get jafnframt sagt frá því um leið og ég svara fyrirspurninni að í dag verða formlega tekin í notkun hin miklu umferðarmannvirki sem eru mislæg gatnamót í Mjóddinni sem tengja saman Reykjanesbrautina og Nýbýlaveg í Kópavogi m.a. Þessi vegaframkvæmd er mjög mikilvæg til þess að auka afkastagetu vegakerfisins á þessu svæði og mun væntanlega hafa m.a. áhrif á umferð inn í Smárann og reyndar víðar um þetta svæði.

Hvað varðar framkvæmdir við tengingar inn á Smárasvæðið af Reykjanesbrautinni þá hafa Vegagerðin og samgrn. átt í mjög góðu samstarfi við bæjaryfirvöld í Kópavogi í þeim tilgangi að bæta úr, taka tillit til þeirrar miklu umferðar sem mun væntanlega, eins og hv. þm. benti á, verða þarna á þessu svæði.

Við höfum rætt m.a. um það sem kom fram hjá hv. þm., að fresta mislægu gatnamótunum við Arnarnesveginn og tvöfalda fremur brautirnar. Þetta er allt saman til skoðunar og í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld og við munum leitast við að finna þær lausnir sem bæta úr sem fyrst og eru jafnframt nauðsynlegar aðgerðir til frambúðar.