Umferðarmál við Smáralind í Kópavogi

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 15:37:39 (185)

2001-10-08 15:37:39# 127. lþ. 5.1 fundur 45#B umferðarmál við Smáralind í Kópavogi# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Já, ég átti svo sem von á því að þessi mál hefðu verið rædd a.m.k. í þingflokki Sjálfstfl. Við höfum ekkert komið að hugmyndum um breytingar á forgangsröðun í þingmannahópnum. En það liggur fyrir að mislæg gatnamót við Arnarnesveg og tvöföldun Reykjanesbrautar að þeim sem eru á áætlun 2003--2004 eru svipuð hvað kostnað varðar og að tvöfalda Reykjanesbrautina alla leið að Kaplakrika með ljósum við Arnarnesveginn. Að óbreyttu yrði tvöföldunin ekki komin á fyrr en eftir fimm til sjö ár eftir því sem Vegagerðin hefur upplýst og auðvitað yrðu framkvæmdir við Hafnarfjörð að haldast í hendur við þetta enda eru þær á áætlun.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að mislæg gatnamót í Mjódd hjálpa en þau hjálpa ekki sunnan við Hagasmárann.

Það kemur fram hjá samgrh. að bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa haft samráð við ráðherrann um aðlögun og breytingar og gott væri að heyra hvort fyrir liggur að kalla saman þingmannahópinn og taka formlega ákvörðun um breytingar á framkvæmdaröð.