Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:14:56 (189)

2001-10-08 16:14:56# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson leggur hér fram mikið frv. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Ég geri engar athugasemdir í sjálfu sér við það að hugmyndir séu komnar fram um breytt fiskveiðistjórnarkerfi. Það kerfi sem við erum með í dag er að sjálfsögðu ekki gallalaust og gott að menn leiti leiða til að finna einhverjar nýjar aðferðir til að stjórna þessu.

[16:15]

Það hefur reyndar vafist fyrir mönnum að finna leiðir sem nýst gætu betur. Ég segi því miður. Hér er aðferð sem gerir ráð fyrir því að afskrifa þessar heimildir á tíu árum og úthluta þeim síðan með uppboðum. Ég ætlaði að spyrja hv. þm. um hvað hann hefði hugsað í þessu sambandi. Við vitum að sumar útgerðir hafa fjárfest fyrir milljarða, jafnvel marga milljarða, í skipum. Þær hafa tekið lán sem eru kannski upp á nokkra áratugi. Þessi lán eru með veði í skipunum og aflaheimildunum. Er hann ekkert hræddur um að það geti komið upp skaðabótakrafa á ríkissjóð í framhaldi af slíkri lagabreytingu?

Mig langaði einnig til að vita hvað flutningsmaður gerir ráð fyrir að uppboðin geti gefið þjóðinni miklar tekjur. Eða með öðrum orðum: Hvað á að skattleggja útgerðina mikið fyrir þessar veiðar miðað við þessar hugmyndir?