Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:42:52 (195)

2001-10-08 16:42:52# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:42]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Kristján Pálsson hefur lesið tillögur mínar lauslega eða nefndarálitið.

Það kemur alveg skýrt fram í nefndarálitinu að við leggjum til að tekið verði mið af stöðu sjávarbyggða, sem sagt sveitarfélaganna, í fiskvinnslu og veiðum síðustu tíu ár. Það er alveg ljóst að það þarf lagasmíð á grunni svona tillagna, alveg eins og það þarf lagasmíð á grunni tillagna meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar.

Við tökum það alveg skýrt fram eða ég tek það alveg skýrt fram í mínum tillögum að ég vil færa vald til sveitarfélaganna um það sem þau fá úthlutað, færa það til þeirra. Í textanum er gerð grein fyrir því að það er í valdi sveitarfélaganna samkvæmt þessum hugmyndum að hafa álit á því og framkvæma það eftir því hvernig þau vilja sjá hlutina þróast. Sveitarfélögin gætu t.d. í því sambandi ákveðið að hafa ekkert veiðileyfisgjald. Þau gætu ákveðið að bjóða ekki upp heldur úthluta til fyrirtækja sem starfandi eru í sveitarfélaginu þess vegna.

Þau gætu líka á vissan hátt ákveðið það að setja hlutina á markað. Þau gætu ákveðið það heima fyrir að treysta grunn t.d. sjávarjarða. Og þau gætu ákveðið heima fyrir að leggja meiri áherslu á vistvænar veiðar sem við leggjum mjög mikið upp úr. Með valdi þeirra yfir þessum hluta sem í mörgum tilfellum mundi gagnast smábáta- og bátaflotanum víða í sjávarbyggðum, er ég sannfærður um að brottkastsvandamálið yrði miklum mun minna. Ég held að það gefi alveg augaleið.

Við verðum að finna einhverjar sjálfvirkar leiðir. Við verðum að framkalla kerfisbreytingar sem leiða til þess að jafnmikið vandamál og brottkastið er hverfi. Það dugar ekki til lengri tíma litið að vera hér með lögreglu á öllum póstum.