Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:47:24 (197)

2001-10-08 16:47:24# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo algengt hérna í þingsalnum á hinu háa Alþingi að menn treysti ekki sveitarstjórnarmönnum. Sú hugmynd með aðkomu sveitarfélaganna og sveitarstjórna --- við höfum dæmi þar sem það gengur alveg glimrandi. Ég skal nefna dæmi úr mínu kjördæmi þar sem Grenivík hefur 1.000 tonna þorskígildiskvóta. Sveitarstjórn Grenivíkur notar hann sem skiptimynt í samningum við Útgerðarfélag Akureyringa um myndarlega vinnslu á staðnum. Það má því ekki alltaf halda að við á hinu háa Alþingi og kerfi í Reykjavík geti eitt stjórnað málum.

Sú reynsla sem fékkst af byggðakvóta var auðvitað í þeim dúr og í þeim mæli að það gat kannski ekkert farið hjá því að rifist yrði um þetta lítilræði upp á 1.500 tonn. Það gefur augaleið. Og það er engin reynsla komin á svona hugmynd út frá 1.500 tonnum, hv. þm. Kristján Pálsson.

Ef við víkjum að nýliðun, þá hef ég annað dæmi úr kjördæmi mínu. Ég veit ekki betur en að þeir gömlu í Grímsey hafi ákveðið að ungu mennirnir skyldu hafa forgang um að nýta þennan svokallaða byggðakvóta. Ég veit ekki betur en það sé tilfellið.

Menn mega því ekki alltaf gefa sér það á hinu háa Alþingi að menn hugsi ekki heila hugsun heima fyrir. Mér finnst það mjög algengt hér. Ég held að það séu bara sleggjudómar og alls ekki rétt. Og það á að færa völdin í miklu meiri mæli heim til sveitarfélaga og héraða til þess að bæta stjórnsýsluna í landinu. Það er skoðun mín.