Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:51:51 (199)

2001-10-08 16:51:51# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson talar um hvort ekki sé rétt að sýna spilin. Ég tel að ég hafi í nál. mínu algjörlega sýnt spilin. Ég lagði nál. mitt fram eftir umfjöllun í þingflokki og fullkomin samstaða var um það.

Ég hef líka sagt frá því opinberlega og í blaðagreinum að sú aðferð að fara fyrningarleið og innkalla veiðiheimildir á tiltölulega löngum tíma sé fyrst og fremst hugsuð til þess að gefa þeim aðilum sem eru í kerfinu núna og óneitanlega þurfa að breyta lifnaðarháttum sínum og lífssýn meiri möguleika á því að aðlagast nýju kerfi.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að farið er rólega í sakirnar fyrstu sex árin, innköllunin er orðin 60% á 12 árum. En fyrstu sex árin er í raun og veru bara verið að innkalla um 2% á ári, eða 12%. Það er mjög væg aðgerð í sjálfu sér.

Ég batt fyrir mína parta miklar vonir við að stjórnarmeirihlutinn gæti komið til móts við okkur á þessum nótum, þó svo að við þyrftum að bíta í það súra epli að sjá þróunina til betri vegar gerast á miklu lengri tíma en við hefðum viljað sjá gerast. Þannig standa málin.

En sjávarútvegsstefna okkar er alveg hrein og skýr. Ég held að ég hafi ekkert verið að draga skóna niður af sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar. Ég hélt ég hefði sagt að ég væri vongóður um að flötur yrði á því að stilla saman strengi til að ná mönnum inn á línu sem gæti fært okkur til betri vegar.