Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 16:55:56 (201)

2001-10-08 16:55:56# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt og rétt skilið hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að við erum að fara mjög varlega í þessum tillögum okkar í fyrninguna fyrstu árin. Það er gert mjög meðvitað til þess að skapa þennan yfirgang frá gamla kerfinu til þess nýja, og gera hann auðveldari.

Það er auðvitað áhyggjuefni og það hefur komið fram í umræðunum að fjárfesting í útgerð er náttúrlega ekki til örfárra ára. Þetta er 10, 15, 20 ára fjárfestingardæmi. Ég held að engum sé greiði gerður með tillögum sem framkalla einhvers konar kollsteypur. En ég vil þó segja í þessu sambandi að hv. þm. Jóhann Ársælsson skilur tillögurnar í grundvallaratriðum rétt.

Í tillögum okkar segir einnig að fyrningin skuli eiga sér stað á 20 árum. Stærsti hluti fyrningarinnar er kominn fram á fyrstu 12 árunum. Það er alveg rétt. En það segir líka í tillögunum að innan 20 ára skuli skoða framhaldið. Það liggur alveg ljóst fyrir í þessum tillögum að fyrningin hefur átt sér stað á 20 árum.

Og þá er það spurningin (JÁ: Þá fá þeir að hafa þetta eitthvað lengur.) um framhaldið. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessum tillögum, hv. þm., að menn fái að hafa þær lengur bundnar en til þessa 20 ára tímabils. Þannig er þetta sett fram.

En ég vil enn og aftur árétta að kannski stendur það síst upp á okkur að vera að etja okkur saman á þessum nótum þar sem ljóst er að við erum báðir inni á því að fara einhverja slíka leið. Við eigum náttúrlega að beina spjótum okkar að stjórninni sem keyrir harða pólitík í þá átt að viðhalda því kerfi sem hefur leikið landsmenn svo grátt sem raun ber vitni.