Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:17:02 (203)

2001-10-08 17:17:02# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:17]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutti hér skörulega ræðu og þar var margt skynsamlega mælt en ekki þó allt. Þó var þar fleira skynsamlegt en miður skynsamlegt.

Ég vildi hins vegar rifja upp, varðandi skarkolann, að eftir hinn ágæta fund sem við áttum á Patreksfirði hækkaði hæstv. sjútvrh. kvótann um 1/3, úr 3.000 tonnum í 4.000 tonn. Þar er hann reyndar enn. Hins vegar virðist, samkvæmt tölum um veiðina, sem veiðin hafi braggast og þær aðgerðir séu að skila árangri.

En sú fullyrðing að ráðuneytið hafi farið í stríð gegn smábátamönnum og krafa ráðherrans sé um að deyða þennan útgerðarflokk er þvílíkt út í hött að maður má vart mæla í því samhengi. Það var lagasetning Alþingis sem mælti fyrir um krókaaflamarkið sem hv. þm. er að vísa til. Ef ég man rétt þá greiddi hann því atkvæði eins og flestir sem þá sátu á þingi.