Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:23:00 (208)

2001-10-08 17:23:00# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig hafa lagt töluvert á mig við að skýra út að ég teldi fullreynt að aflakvótakerfið í botnfisktegundunum, þ.e. þar sem þyngdareiningar eru andlag leyfisins, og að það hefði sannað sig í gegnum tíðina að við gætum ekki notað þessa aðferð, a.m.k. ekki án þess að breyta henni verulega. Ég kom inn á að það væru miklu fleiri víddir en þyngdareiningin ein sem skiptu máli.

Ég tók það líka fram að ég teldi það ekkert aðalatriði í þessu máli hver ætti aflaheimildir, hvort við værum að skattleggja sjávarútveg eða leyfa eða leyfa ekki verslun í sjávarútvegi. Aðalatriðið var að gera sér grein fyrir því á hlutlægan hátt hvaða árangri við hefðum náð og hvaða árangri við hefðum ekki náð. Niðurstaða mín var alveg skýr. Ég er viss um að við erum ekki að ná árangri í botnfiskveiðum.