Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:27:31 (212)

2001-10-08 17:27:31# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Frá upphafi hef ég litið á það og lít á það enn sem eðlilegan hlut að útgerðin í landinu sé handhafi þeirra veiðirétta sem er úthlutað hverju sinni. Sameignin, þ.e. skylda ríkisins til þess að hámarka veiðina og fara sem best með hana, er ríkisins. En útgerðin í landinu er handhafi þessa réttar. Þannig að hvort sem við köllum það eignarrétt eða eignarréttarígildi, það liggur fyrir í mörgum dómum, þá tel ég eðlilegt að útgerðin í landinu sé handhafi réttarins.

Ég lít á fyrningarleiðina sem þjóðnýtingarleið. Ég geri það. Það er alveg skýrt í mínum huga. Ég tel það langsamlega farsælast þessu þjóðfélagi að útgerðarmenn landsins, smáir sem stórir, séu handhafar réttarins.