Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:34:10 (218)

2001-10-08 17:34:10# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson þarf ekki að ganga eftir neinu. Hann getur treyst því sem sagt hefur verið. Hann hefur fulla ástæðu til þess.

Mönnum gengur ekkert annað til en eitt. Það liggur fyrir alls staðar í sjávarbyggðunum kringum landið að ekki verður lifað án hörmulegra afleiðinga við þá stöðu sem er í dag. Að fá þessu breytt er því spurning um líf eða dauða fyrir fjölmargar byggðir. Því hefur enginn maður ástæðu til þess að efast um annan, alls enga, ekki nokkra. Menn hafa enga ástæðu til að efast um að menn muni ganga fram af fullri einurð með vilja sínum fram í því að gera allt til þess að þessu verði breytt, þetta verði fært til fyrra horfs, þess fyrra horfs sem við sömdum um 1996 og sátt var um á Alþingi.