Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 17:35:27 (219)

2001-10-08 17:35:27# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Nú er komin upp svolítið óvenjuleg staða. Hér er á dagskrá Alþingis frv. til laga um um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, og 1. flm. er Jóhann Ársælsson. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir mjög ítarlega framsögu og ágæta greinargerð í því frv. sem hér er til umræðu.

En nú hefur umræðan einhvern veginn þróast þannig eftir mikla eldmessu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að hún er farin að snúast í raun um allt annað en það frv. sem hér er á dagskrá. (Gripið fram í.) Sú umræða er reyndar mjög nauðsynleg og þörf, en ég hafði nú sett mig á mælendaskrá til þess aðeins að bregðast við frv. hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og meðflytjenda hans.

Um þá miklu ræðu sem hér var flutt síðast af hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni vil ég aðeins segja, og ég hef látið vita af því í mínum þingflokki, að ég styð þau sjónarmið sem hann kynnti varðandi smábáta og þarf ekkert að hafa fleiri orð um það. Ég tel einfaldlega að þau rök sem hafa verið dregin fram í því og komu fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, dugi. Þau snerta vanda sjávarbyggða. Þau snerta lífið í landinu. Þau snerta sjávarútvegsstefnuna almennt og þau snerta í rauninni sjávarútvegskerfið í heild sinni.

Ég tel að ófært með öllu að stefna í voða atvinnu, sérstaklega í minni sjávarplássum víða úti á landi, fyrir örfáar þúsundir tonna og láta þjóðfélagið loga stafna á milli, ekki síst í ljósi þess að þessi tonn eru veidd í dag þó að þau séu ekki vegin og metin í heildarveiðinni. Þá vísa ég til eins mesta veikleika þessa fyrirkomulags, þess veiðikerfis sem við búum við núna, þ.e. brottkastsins. Ég vísa til verulegrar ónákvæmni í fiskveiðiráðgjöf, með fullri virðingu fyrir vísindamönnum sem vinna í afskaplega flóknu umhverfi og vísa til þess sem áður hefur komið til umræðu hér, þ.e. nýtingarstuðla frystitogara sem veita þeim forgjöf fram yfir landvinnslu. Með þessum rökum, herra forseti, hef ég sagt frá því í mínum þingflokki og ég hef sagt frá því opinberlega að þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um smábátana, lagalegar forsendur eru ekki þær að hv. Alþingi neyðist til þess að kvótasetja þennan útgerðarflokk og því eigum við að ganga aftur til samkomulagsins frá 1996.

Þetta var um þá ræðu sem hér var flutt áðan og þá stefnu sem umræðan tók og langar mig nú aðeins til þess að víkja að því sem ég upphaflega ætlaði að gera, þ.e. frv. hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og fleiri. Ég vil segja í því sambandi að miklar vonir voru bundnar við starf auðlindanefndar og rétt er að minna á að tillagan um auðlindanefnd kom fram hér á hv. Alþingi frá fulltrúa stjórnarandstöðunar, ef ég man rétt, hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Miklar vonir voru bundnar við störf þessarar nefndar vegna þess að umræðan um auðlindagjald, um veiðileyfagjald og um arð og tekjur af sjávarútveginum, hefur verið mjög áberandi síðustu árin og síðustu missirin og skapað afskaplega mikla óvissu fyrir þá sem starfa í þessari mikilvægu grein. Þess vegna var það afskaplega vel til fundið að skipa þverpólitíska nefnd og ég hygg að þingheimur allur hafi bundið miklar vonir við það starf sem fram fór í nefndinni.

En það er nú oft einmitt þannig að þegar væntingar eru miklar þá verða vonbrigðin þeim mun meiri ef útkoman verður ekki sú sem menn höfðu vonast til. Sannarlega, herra forseti, voru það mikil vonbrigði að auðlindanefndin skyldi klofna nánast í frumeindir í margólík sjónarmið.

Þegar grannt er skoðað kemur það e.t.v. ekki svo mikið á óvart að skoðanir manna um land allt á sjávarútvegi séu jafnmargar og þeir sem tjá sig. Hér er um gífurlega hagsmuni að ræða. Þetta er sú stoð sem efnahagslífð byggir fyrst og fremst á. Þetta er gildasta stoð efnahagslífs íslensku þjóðarinnar og þess vegna er eðlilegt að menn hafi ólíkar skoðanir á málinu. Það voru sem sagt mikil vonbrigði. Ég held hins vegar að rétt sé að árétta það úr 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að auðlindin er eign þjóðarinnar. Það finnst mér vera ákveðinn útgangspunktur. Þó að einstaklingar og félög þeirra hafi umráðarétt yfir þessari sameign þjóðarinnar þá er það útgangspunktur í því sem verið er að tala um.

Ég virði mjög það sjónarmið sem hv. þm. Jóhann Ársælsson kynnti hér og kemur fram í ítarlegri og mjög faglegri og vel unninni greinargerð um þau markmið að auka og ná jafnræði hvað varðar aðgengi að og notkun auðlindarinnar. Ég virði það sjónarmið. En ég leyfi mér að spyrja um leið varðandi það markmið, sem er göfugt og ber auðvitað að stefna að, hvort nokkurn tíma verði hægt að ná slíku markmiði meðan takmarka þarf aðgengi að auðlindinni. Er það þá ekki eins og sá ágæti sjávarútvegsráðherra Jørgen Niclasen sagði: ,,Mission impossible``, þegar hann var að lýsa fyrir hv. sjávarútvegsnefnd þeirri viðleitni að vilja hafa jafna veiði allan ársins hring, má segja, og á öllum árum og líta fram hjá þeim náttúrulegu sveiflum fiskstofna sem ávallt koma? Ég varpa fram þeirri spurningu hvort það markmið, jafnræði, muni í rauninni nást til hlítar meðan takmarka þarf aðgengi að auðlindinni. Um leið og þarf að takmarka sprettur upp ákveðið misræmi því að sumir komast að en aðrir ekki.

Aðalatriðið í þessu hlýtur að vera að þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, fái sem mestan arð af sameiginlegri auðlind sinni. Mér finnst á stundum í þessari umræðu dálítið lítið gert úr þó þeim efnahagslega árangri sem hefur náðst og þarf ekki annað en að vísa til þess sem menn hafa kallað --- og geta svo sem deilt um --- velferðarástand, góðæri síðustu ára. Óneitanlega hefur efnahagur íslensku þjóðarinnar á síðustu árum verið nokkuð traustur og nokkuð sterkur. Þar sem sjávarútvegurinn er meginstoð í efnahagslífi okkar þá hlýtur það að benda til þess að menn hafi náð einhverjum efnahagslegum ávinningi af nýtingu auðlindarinnar, hvað svo sem okkur finnst um aðferðina að öðru leyti.

Ég vil spyrja út frá hugmyndinni um jafnræði sem ég ítreka að mér finnst vera mjög göfugt og skynsamlegt markmið að stefna að: Getum við talað um að það náist fullt jafnræði með því að fara hina svokölluðu fyrningarleið og kalla veiðiheimildir til baka reglulega eftir þeirri aðferð sem lýst er í frv.? Næst þá fullt jafnræði gagnvart landsbyggðinni? Þar sem flestar veiðiheimildirnar liggja nú úti á landsbyggðinni, skapar það þá ekki ákveðna óvissu fyrir heilu sjávarútvegsplássin þar sem óvíst er hvar þessar afturkölluðu veiðiheimildir lenda? Getur það kallast jafnræði þegar hið hóflega gjald sem um er talað --- ýmsir hafa reiknað það út og birt í fjölmiðlum og nefndar hafa verið 300--400 milljónir á sjávarútvegspláss eins og Vestmannaeyjar og 200--300 milljónir á stað eins og Grindavík --- er það fullt jafnræði þegar sá skattur leggst á slík pláss og fer í hina óseðjandi hít, ríkiskassann, til annarrar ráðstöfunar?

[17:45]

Ég spyr líka: Hvað með landsbyggðina? Er það jafnræði gagnvart landsbyggðinni? Með því að setja innkallaðar veiðiheimildir á uppboðsmarkað, erum við þá ekki um leið að auðvelda útlendingum að komast bakdyramegin inn í efnahagslögsögu okkar sem eigendur? Á það hefur verið bent að þróunin hafi verið í þá átt að erlendir aðilar hafi komið sér upp leppum, íslenskum ríkisborgurum. Nú eftir Valdimarsdóminn, þegar veiðileyfi eru gefin tiltölulega auðveldlega út, þá vantar ekkert annað en fjármagn og fisk á uppboð (Gripið fram í.) sem opnar útlendingum enn frekar möguleika til að bjóða í aflaheimildir og komast bakdyramegin inn.

Ég velti þessu upp, herra forseti, út frá hugmyndum um jafnræði gagnvart þjóðinni og gagnvart sjávarplássum þar sem veiðiheimildirnar óneitanlega eru. Ég spyr mig hvort við náum jafnræði í nýliðun. Það er auðvitað áhyggjuefni hversu erfiðlega gengur fyrir nýliða að komast inn í greinina. Við þekkjum dæmi þess að einstaklingar eru að basla við að kaupa sér báta og fá sér veiðileyfi og eru síðan leiguliðar annarra. Ég spyr hvort það sé jafnræði gagnvart þeim, að setja hinar afturkallanlegu veiðiheimildir á opinn uppboðsmarkað þar sem afl fjármagnsins mun ráða. Eru þessir einstaklingar almennt burðugir til þess að standast uppboð sem eiga sér stað á frjálsum markaði? Eru það þessir einstaklingar sem einatt eiga greiðastan aðgang að fjármagni? Eða getur verið að hinir, sem eru stórir og sterkir fyrir, sem hafa greiðastan aðgang að fjármagninu, muni sigra í þeim slag? Erum við þá búin að ná jafnræði gagnvart nýliðum, sem er að sjálfsögðu mjög göfugt markmið? (Gripið fram í.)

Ég spyr einnig hvort þessar tillögur stuðli að jafnræði gagnvart þeim sem eru fyrir í greininni og í mörgum tilvikum búnir að gera hagstæða langtímaviðskiptasamninga við erlenda aðila um tiltölulega gott verð. Kemst starf þeirra í uppnám? Kemst markaðsstarf þeirra í uppnám? Getur verið að upp kæmi óöryggi gagnvart slíkum fyrirtækjum og sú fjárfesting sem hefur verið lögð í markaðssókn slíkra fyrirtækja kæmist í uppnám ef þessi leið yrði fyrir valinu, og er það þá jafnræði gagnvart þeim?

Ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að markmiðin eru göfug. Ég hef þó ákveðnar efasemdir um að svokölluð fyrningarleið og samhliða auðlindagjald nái þeim markmiðum sem hv. þm. kynnti í ágætri og ítarlegri framsöguræðu sinni og sett eru fram í grg. með frv.

Ég árétta það sem ég nefndi áðan að ég hef velt mikið fyrir mér hvort jafnræðið náist á meðan aðgengið að auðlindinni er takmarkað. Felst ekki í því að færri komist að en vilja? En það fylgir augljóslega takmörkun.

Hitt er annað mál að ég vil taka undir, og ætti svo sem ekkert að koma á óvart, bráðabirgðaákvæði a í 9. gr., þ.e. um tilraun með brottkast. Þetta hefur áður komið til umræðu hér á hv. Alþingi. Ég hygg að margir hv. þm. hafi lýst skoðun sinni á þessu og þeirra á meðal sá er hér stendur. Ég tek undir það sjónarmið að brottkastið er einn svartasti bletturinn á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi þar sem miklum verðmætum er sóað með því að þvinga menn til að kasta verðmætum í sjó, í stað þess að koma með þau að landi. Það skiptir engu hversu flóknar myndavélar við notum eða hversu margir eftirlitsmennirnir verða, á meðan þetta er innbyggt í kerfið þá mun brottkastið eiga sér stað. Þar fara milljarðar beinlínis í súginn auk þess sem brottkastið hefur áhrif á mælingar Hafrannsóknastofnunar á stofninum. Þess vegna er það eðlilegt --- ég tek undir það sem fram kemur í frv. eins og ég nefndi áðan og hef lýst þeirri skoðun minni áður --- að heimila mönnum að koma með allan afla að landi. Þeir sem það kjósa tilkynna hvaða hlut skuli ekki draga af kvóta sínum en tryggja þarf að útgerð geti ekki gert út á slíkt. Þess vegna þarf andvirðið af markaðssölunni að vera hæfilega lágt til þess að menn geri ekki út á slíkt.

Ég spyr hv. þm. Jóhann Ársælsson, af því að hér er ekki nefnd nein prósenta, hvað hann teldi hæfilega prósentu til útgerðar og áhafnar. Hugsunin er rétt, eins og hún kemur fram í frv., að útgerð og áhöfn skuli fá hæfilegan hluta af markaðsverðinu en annað renni til Hafrannsóknastofnunar. Eru menn að velta fyrir sér 15%, 20% eða meira? Þá vil ég spyrja hvort ekki væri hyggilegt að sá hluti sem útgerð fær ekki, af þeim afla sem ekki dregst af kvóta, að víkka það aðeins þannig að sá hluti renni ekki aðeins til Hafrannsóknastofnunar heldur einnig í sjóð um öryggismál sjómanna, í markaðssókn, slysavarnir sjómanna og þar fram eftir götunum.

Herra forseti. Ég hef lýst efasemdum mínum um þá leið sem kynnt er í frv. Ég geri mér grein fyrir því að um þessa leið eru skiptar skoðanir. Ekki þarf annað en að vísa í niðurstöður endurskoðunarnefndarinnar og þau vonbrigði sem kviknuðu þegar ljóst var að nefndin hefði klofnað í herðar niður, í hluta og þá nokkuð marga. Það á svo sem ekki að koma á óvart að skoðanir um þetta séu nokkuð skiptar hér á hv. Alþingi.