Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:02:09 (229)

2001-10-08 18:02:09# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt vegna orða hv. þm. Kristjáns L. Möller að fram komi að þau sjónarmið sem ég lýsi hér eru sjónarmið mín. Ég er ekki að flytja sjónarmið þingflokksins en ég geri ráð fyrir að innan hans séu afskaplega skiptar skoðanir um þessi mál eins og reyndar víðar. Það er nú einu sinni svo, og það er tilfinning mín, að afstaða til annars vegar togaraútgerðar og hins vegar smábáta, svo dæmi sé tekið, ráðist meira af búsetu en af flokkum, og að ágreiningurinn innan flokkanna sé á stundum ekki minni en á milli flokka.

Hvað varðar hið ágæta tilboð þá ætla ég ekkert að taka þátt í neinu kapphlaupi um gerð frv. eins og ég hef lýst. Ég tel hins vegar að ég sé tilbúinn með frv. ef því er að skipta. En ég tek undir það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði og tel að farsælast væri ef hæstv. sjútvrh. vildi leiða málið til þeirra lykta sem hér hafa verið dregnar upp.