Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:10:30 (234)

2001-10-08 18:10:30# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki mundi standa á mér að fara í leiðangur með hv. þm. til þess að leita að betri leið sem skilaði mönnum meira jafnræði. En eitt er þó alveg víst að ekki er jafnræði í kerfinu eins og það er núna. Og ef hv. þm. hefur slíkar áhyggjur af því að við komumst ekki nógu langt með tillögur okkar, þá erum við auðvitað tilbúnir til að fara með honum í göngu til að finna eitthvað enn þá betra til að bæta mönnum möguleikana sem eru á uppboðsmarkaðnum.

En við hvað búa menn í dag? Menn eiga við það að búa að eiga enga möguleika. Nýliðar eiga enga möguleika á því að koma upp útgerð í landinu. Og sveitarfélög eða byggðarlög þar sem gert hefur verið út eins lengi og menn muna eru kannski orðin kvótalaus og eiga enga möguleika til að rétta sig aftur við í því kerfi sem er núna, einfaldlega vegna þess að sá markaður sem boðið er upp á er á þann veg. Og þar er aldeilis ekki jafnræði sem ríkir til þess að komast að veiðiheimildunum, það er ekki einu sinni hægt að fá að bjóða í þær, hvað þá meira.

Þetta er það sem við stöndum frammi fyrir og ef við ætlum að leita einhvers réttlætis verðum við auðvitað að notast við þær hugmyndir sem við höfum bestar hverju sinni. Ég skal skoða nýjar hugmyndir ef hv. þm. hefur þær.