Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:54:43 (240)

2001-10-08 18:54:43# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:54]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um að betra sé að fara hratt út úr kerfinu og inn í nýtt kerfi. Ég hefði hins vegar talið að það gæti valdið verulegum vanda í þeim fyrirtækjum sem eru í sjávarútvegi núna ef veiðiheimildirnar, sem hafa kannski nýlega verið keyptar eins og gerist í einstökum tilfellum, eru teknar mjög hratt af fyrirtækjunum og menn fá þá ekki neinar bætur fyrir það. Ég tel hins vegar að til sé betri flötur á málinu, þ.e. í samræmi við það sem við höfum lagt til. Við höfum lagt til, og teljum okkur hafa skoðað það nokkuð vel, að fyrirtækin ættu að geta lifað það af ef þessu kerfi yrði breytt á 10 árum. Það er í samræmi við það sem ég hef sagt, að ef menn innkalla þetta á 5 árum og bæta fyrirtækjunum með greiðslu í fyrsta skiptið sem veiðiheimildirnar yrðu settar á markaðinn, þá mundi það jafngilda 10 ára aðlögun. Það er þetta sem ég var að spyrja um.

Ég tel hins vegar að vangaveltur hv. þm. um sóknarstýringarkerfi meðfram þessu kerfi séu góðra gjalda verðar. Ég tel ekki ólíklegt að menn muni kannski fljótlega fara að fikra sig inn á eitthvað slíkt að hluta til í flotanum. Mér finnst bara eðlilegt að menn ræði það vandlega.

Ég held hins vegar að menn verði að horfast í augu við það að til þess að menn fari að tala af skynsemi og fullum áhuga um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu þá þurfi að gera það sem við erum að leggja til, taka á eignarhaldinu og koma því máli frá. Í framhaldi af því opnast leiðir til að tala um þessa hluti.