Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 18:56:48 (241)

2001-10-08 18:56:48# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Já, við tölum að nokkru leyti hvor sitt málið við þessa umræðu. Hv. þm. Jóhann Ársælsson talar um eignarkerfið. Ég lít svo á að útgerð þurfi fyrst og fremst að hafa veiðirétt. Hún þarf að hafa nýtingarrétt. Að mínu viti þarf hún ekki sölurétt og ekki leigurétt og að því leyti er ég ekki alveg sáttur við útfærsluna í tillögum Samfylkingarinnar, þ.e. að útgerðin geti haldið áfram að leigja kvóta innan þess tímabils sem er í gangi. Ég hefði talið betra að það yrði tekið af og ef menn vildu ekki nýta þær heimildir, hvort sem það eru heimildirnar sem þeir fá úthlutað eða heimildirnar sem þeir leigja til sín, þá yrðu þær settar á markað og aðrir gætu gengið að þeim. Þannig væri líka léttara að stýra því hvert þessar aflaheimildir fara, bæði með tilliti til byggðasjónarmiða eða út frá uppruna þeirra, ef svo má að orði komast, hvort sem er innan útgerðarflokks eða með tilliti til byggðasjónarmiða.

Auðvitað getur bratt fráhvarf valdið vandamálum í þessu. En menn hafa verslað með þessar heimildir vitandi að þær eru ekki þeirra eign, heldur þjóðareign. Ef það er vandamál að fara frá þessu á fimm árum, er það þá svo mikið vandamál að það sé ekki hægt? Menn eru að færa heilu fisktegundirnar, eins og hæstv. sjútvrh., inn í kerfið, einn, tveir og þrír eða kippa þeim út úr því. Við munum hvernig var með steinbítinn í sumar. Ég held því að fimm ár séu bara þokkalegur tími.