Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 19:29:23 (249)

2001-10-08 19:29:23# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[19:29]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ef mig misminnir ekki þá var þetta lítilræði sem átti að innkalla 4--5% á ári. Það er í nokkru samræmi við það sem kom fram í tillögum Kristins H. Gunnarssonar og Árna Steinars Jóhannssonar sem hv. fulltrúar Samfylkingarinnar hafa farið fögrum orðum um í umræðunni.

Varðandi kaupréttinn sem um er að ræða þá er það stöðugleikinn sem skiptir mestu máli í þessu kerfi og skiptir hinar veikari byggðir mestu máli. Sjávarútvegurinn er atvinnugrein landsbyggðarinnar, númer eitt, og mestu máli skiptir að viðhalda þar stöðugleika. Vandamálið við fyrninguna er að hún kallar á óstöðugleika. Fyrningin snýst um að taka kvótann frá þeim sem eru með hann í dag og færa hann yfir til einhverra annarra. Hinar veiku byggðir á landsbyggðinni þurfa á öðru að halda en að lífsbjörgin sé rifin frá þeim.