Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 19:37:24 (256)

2001-10-08 19:37:24# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[19:37]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að jafnvel á síðasta fiskveiðiári nýtti aflamarksflotinn ekki veiðiheimildir sínar í steinbít. Og ég held að ég muni rétt að það hafi verið hátt í tvö þúsund tonn sem hinn stóri, öflugi aflamarksfloti nýtti ekki í steinbít heldur notaði til að búa sér til aðrar fisktegundir sem hentuðu veiðum hans betur. Þannig vil ég nú segja, hæstv. forseti, að mér finnst þessi mikli áhugi hæstv. sjútvrh. á að keyra menn inn í kvótakerfið í smábátaveiðunum ekki alveg eiga við rök að styðjast.

Ég vil líka vekja athygli á því að með hlýnandi sjó umhverfis landið hefur ýsugengd aukist á grunnslóð og þannig mun það vera meðan sjór er hlýr. Það þýðir að smábátarnir eiga betri aðgang að veiðiheimildum innan tólf sjómílna heldur en t.d. togaraflotinn, sem á almennt ekki veiðiheimildir allt í kringum landið, sérstaklega ekki fyrir vestan og norðan.

Að öllu samanlögðu er það niðurstaða mín að þetta kerfi sem er verið að setja yfir smábátana auki brottkast verulega.