Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 08. október 2001, kl. 19:38:44 (257)

2001-10-08 19:38:44# 127. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 127. lþ.

[19:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Í staðinn fyrir að vera að rífast um krókaaflamarkskerfið eða kvótakerfið eigum við að reyna að leita leiða til þess að sníða af þá galla sem eru á kerfinu, og hvernig megi aðlaga það breytingum í náttúrunni.

En hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi sérstaklega steinbítinn og að aflamarksskipin hefðu ekki veitt kvótann sinn á þarsíðasta fiskveiðiári (GAK: Síðasta.) eða síðasta fiskveiðiári og þá væntanlega þarsíðasta líka. En ég vil minna hann á það að í millitíðinni höfum við gert breytingar á svokallaðri ,,tegundartilfærslu`` sem hann hefur gagnrýnt mjög mikið í langan tíma. Hún er nú takmörkuð og það mun væntanlega leiða til þess að ekki verður hægt að breyta í svo stórum stíl einni tegund í aðra og væntanlega mun tegundartilfærslan nýtast sem meðaflaregla eins og hún var upprunalega hugsuð.