Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 13:30:56 (258)

2001-10-09 13:30:56# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[13:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum. Frumvarpið er mál nr. 114 og er að finna á þingskjali 114.

Þetta skattafrumvarp sem er eitt það viðamesta er lagt hefur verið fram um árabil felur í sér víðtækar umbætur í skattamálum, jafnt hjá einstaklingum sem fyrirtækjum með samsvarandi áhrifum á íslenskt efnahagslíf.

Í fyrsta lagi eru lagðar til margvíslegar breytingar á skatthlutföllum og viðmiðunarstærðum skattkerfisins bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Tekjuskattar fyrirtækja lækka verulega og sama má segja um eignarskatta fyrirtækja og einstaklinga. Nokkur lækkun verður einnig á tekjuskatti einstaklinga auk þess sem lagt er til að skattskylda húsaleigubóta falli niður. Á móti þessum lækkunum er gert ráð fyrir lítils háttar hækkun á tryggingagjaldi frá og með árinu 2003. Breytingarnar taka að öðru leyti gildi ýmist á árunum 2002 eða 2003.

Í öðru lagi er lagt til að verðbólguleiðréttingar í skattskilum og reikningsskilum verði afnumdar sem er stórt skref í átt að aðlögun okkar skattkerfis að kerfum annarra ríkja.

Í þriðja lagi er lagt til að skattaleg meðferð einstaklinga í atvinnurekstri við yfirfærslu rekstrar í einkahlutafélag lúti sömu reglum og yfirfærslur milli annarra félagaforma. Að lokum eru lagðar til ýmsar breytingar er fyrst og fremst snúa að túlkun og framkvæmd laganna.

Víkjum þá nánar að einstökum tillögum.

Sem fyrr segir er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir margvíslegum breytingum á skattalögum sem varða bæði einstaklinga og fyrirtæki og munu þessar breytingar koma til framkvæmda á næstu tvö árin. Að því er varðar einstakar breytingar frumvarpsins á sköttum einstaklinga eru þessar helstar:

Í fyrsta lagi ber að nefna hækkun á fríeignarmörkum almenna eignarskattsins og sérstaka eignarskattsins, hins svokallaða þjóðarbókhlöðuskatts, um 20% til þess að koma í veg fyrir að hækkun fasteignamats á þessu ári leiði til hækkunar eignarskatta á næsta ári. Ef ekki kæmi til þessi hækkun á lögunum að þessu leyti til og þessi breyting á fríeignarmörkunum myndu tekjur ríkissjóðs af þessum skattstofni aukast um á að giska 1 milljarð kr.

Í annan stað verða frítekjumörk í sérstökum tekjuskatti einstaklinga, hinum svokallaða hátekjuskatti, hækkuð um 15% vegna tekna sem aflað er á þessu ári. Þetta þýðir að þeir sem eru að greiða fyrir fram upp í þennan skatt á síðari hluta yfirstandandi árs munu í einhverjum tilvikum eiga inneign við endanlega álagningu skattsins í lok júlí á næsta ári.

Í þriðja lagi mun almenni tekjuskatturinn lækka um 0,33%, þ.e. úr 26,08% í 25,75% frá næstu áramótum, sem kemur til framkvæmda við staðgreiðslu í byrjun árs 2002. Þessi ákvörðun var tekin í tengslum við endurskoðun kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum á liðnum vetri í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, en hún hefur ekki verið lögfest og er þess vegna hluti af þessu frumvarpi hér.

Í fjórða lagi lækkar almennur eignarskattur einstaklinga úr 1,2% í 0,6% miðað við árslok 2002. Jafnframt því mun sérstaki eignarskatturinn, hinn svokallaði þjóðarbókhlöðuskattur sem í dag er 0,25%, falla niður frá sama tíma. Áhrif þessara breytinga munu koma fram við álagningu á árinu 2003. Í þessu sambandi má benda á að með upptöku samræmds fjármagnstekjuskatts árið 1996 með álagningu 10% skatts á nafnvexti sem áður voru skattfrjálsir og lækkun skatta á öðrum fjármagnstekjum einstaklinga, brustu veigamiklar forsendur fyrir álagningu eignarskatta á einstaklinga. Af ýmsum ástæðum var þó á þessum tíma ekki talið tímabært að lækka eða afnema eignarskatta samhliða upptöku fjármagnstekjuskattsins, meðal annars vegna þess að fyrstu áætlanir gáfu til kynna að fjármagnstekjuskatturinn mundi skila tiltölulega litlum tekjum. Annað hefur hins vegar komið á daginn og af þeim ástæðum er talið eðlilegt að stíga myndarlegt skref í átt til lækkunar eignarskatta á einstaklinga.

Í fimmta og síðasta lagi er lagt til að húsaleigubætur verði skattfrjálsar frá og með árinu 2002 til að létta undir með þeim sem minna mega sín á húsnæðismarkaðnum.

Framangreindar breytingar á sköttum einstaklinga eru eðlilegt framhald af þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar á kjörtímabilinu, eins og lækkun almenna skatthlutfallsins, breytingum á barnabótum, fullri millifærslu persónuafsláttar milli maka, auknum heimildum til viðbótarlífeyrissparnaðar o.s.frv.

Eins og áður sagði felur frumvarpið einnig í sér viðamiklar breytingar á sköttum fyrirtækja. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að nú er tæplega áratugur frá því að gripið var til umfangsmikilla skattalækkana á atvinnureksturinn í landinu til þess að treysta undirstöður íslensks atvinnulífs og koma efnahagslífinu upp úr þeirri lægð sem það var í á þeim tíma. Hæst bar veruleg lækkun tekjuskatts fyrirtækja á þeim tíma sem og afnám aðstöðugjaldsins. Með þessum breytingum varð skattalegt umhverfi fyrirtækja hér á landi með því besta sem þekktist í okkar helstu viðskiptalöndum.

Frá þessum tíma hafa hins vegar orðið stórfelldar breytingar á alþjóðavettvangi sem hafa gjörbreytt þessari mynd. Samhliða auknu frelsi í alþjóðaviðskiptum hafa augu stjórnvalda í vaxandi mæli beinst að því að treysta samkeppnisstöðu fyrirtækja, meðal annars með lækkun fyrirtækjaskatta. Af hálfu atvinnulífsins hefur verið brugðist við þessari þróun með aukinni hagræðingu, sameiningu fyrirtækja og fleiri viðlíka aðgerðum. Þetta hefur reynst nauðsynlegt til þess að fyrirtæki geti mætt sífellt aukinni samkeppni erlendis frá, þar sem landamæri skipta sífellt minna máli og fjármagn, fyrirtæki og vinnuafl leita einfaldlega til þeirra landa sem bjóða hagstæðustu aðstæðurnar.

Íslenskt atvinnulíf býr að mörgu leyti við erfiðari aðstæður frá náttúrunnar hendi, ef svo má segja, heldur en erlend fyrirtæki, meðal annars vegna smæðar markaðarins sem og fjarlægðar okkar frá erlendum mörkuðum. Þess vegna skiptir jafnvel enn meira máli hér á landi en annars staðar að skapa atvinnulífinu starfsskilyrði sem eru ekki aðeins sambærileg við önnur lönd heldur betri.

Enn fremur bendir margt til þess að íslenskt atvinnulíf búi ekki lengur við það forskot sem hér ríkti í skattalegu tilliti á síðasta áratug. Þetta á við um tekjuskattshlutfallið sem í dag er rétt undir meðallagi OECD-ríkjanna, en var langt fyrir neðan það fyrir tæplega áratug. Einnig er rétt að hafa í huga að samhliða lækkun skatthlutfallsins hér á landi var skattstofninn breikkaður með afnámi ýmissa frádráttarheimilda og er skattstofninn því óvíða jafnbreiður og hér. Eins má halda því fram að álagning eignarskatta á fyrirtæki líkt og hér er gert sé að verða einsdæmi meðal vestrænna ríkja enda hafa flest ríki sem enn lögðu eignarskatta á fyrirtæki á upphafi síðasta áratugar fellt þá niður.

Herra forseti. Þetta eru í stuttu máli þau efnahagslegu rök sem liggja að baki þeim breytingum sem er að finna í frumvarpinu á skattlagningu fyrirtækja. Hér eru á ferðinni einhverjar umfangsmestu skattalækkunaraðgerðir sem gripið hefur verið til gagnvart íslensku atvinnulífi. Enginn vafi leikur á því að þær munu örva atvinnulífið og skapa forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu þess, bæði fyrir tilstilli innlendra og erlendra fyrirtækja og þannig renna traustari stoðum undir íslenskt efnahagslíf.

Lítum þá nánar á einstaka þætti þessara breytinga. Fyrsta breytingin og væntanlega sú veigamesta er lækkun tekjuskatts hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaða ábyrgð úr 30% í 18% á árinu 2002 sem kemur til framkvæmda við álagningu á árinu 2003. Á sama tíma lækkar tekjuskattur sameignarfélaga og samlagsfélaga úr 38% í 26%.

Í öðru lagi er helmingslækkun almenna eignarskattsins, þ.e. úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002. Jafnframt verður sérstaki eignarskatturinn afnumin frá sama tíma. Þessi áhrif munu koma fram við álagningu ársins 2003.

Í þriðja lagi er lagt til að tryggingagjaldið hækki um 0,77% til að skapa betra og meira svigrúm fyrir ríkissjóð í ljósi framangreindra breytinga. Hér er því valin sú leið að lækka skatta á fjármagn og hækka skatta á vinnuafl sem er að mörgu leyti rökrétt miðað við ríkjandi aðstæður og stuðlar að auknum þjóðhagslegum sparnaði. Einnig er rétt að hafa í huga að tryggingagjöld hér á landi eru tiltölulega lág miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum jafnvel þótt tekið sé tillit til lífeyrisiðgjalda.

Í fjórða lagi er gerð tillaga um afnám verðbólguleiðréttinga í skattskilum og reikningsskilum frá 1. janúar 2002. Það er stórt skref í aðlögun okkar skattkerfis að kerfum annarra ríkja. Alþjóðavæðing íslenskra fyrirtækja og allt starfsumhverfi þeirra kallar á þessa breytingu, þ.e. að reikningsskil þeirra verði samburðarhæf við reikningsskil erlendra keppinauta, auk þess sem erlendir viðskiptaaðilar skilja almennt ekki afkomuhugtak íslenskra fyrirtækja.

Ekki er auðvelt að meta áhrif þessara aðgerða til fullnustu á afkomu ríkissjóðs. Ef einungis er horft til brúttóáhrifa, þ.e. án tillits til hugsanlegra áhrifa þeirra á almenna framvindu efnahagsmála og þar með einnig á afkomu ríkissjóðs, má ætla að tekjur ríkissjóðs gætu lækkað um nálægt 7 milljörðum króna á næstu þremur árum. Þessi fjárhæð gefur hins vegar engan veginn rétta mynd af stöðunni þar sem hér er alveg litið fram hjá ýmsum veigamiklum efnahagslegum áhrifum þessara aðgerða sem munu m.a. birtast í auknum fjárfestingum, aukinni atvinnu, aukinni tekjumyndun og almennt auknum umsvifum í þjóðarbúskapnum. Meðal annars má ætla að þessar aðgerðir muni leiða til bæði aukinna fjárfestinga erlendra aðila hér á landi og koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki flytji starfsemi sína til útlanda. Jafnframt má ætla að lækkun eignarskatta skili sér að hluta í auknum þjóðhagslegum sparnaði og að hluta í aukinni veltu. Öll þessi atriði eru í reynd grundvallarforsenda þess að gripið er til þessara aðgerða.

Niðurstöður útreikninga á efnahagslegum áhrifum aðgerðanna benda til þess að nettóáhrif skattalækkana af þessari stærðargráðu á afkomu ríkissjóðs séu um það bil helmingur þeirrar fjárhæðar sem áður var nefnd eða nálægt 3,5 milljörðum króna. Jafnvel má telja sennilegt að jákvæðu áhrifin verði mun meiri, ekki síst þegar fram í sækir.

Að lokum er rétt að fara nokkrum orðum um önnur atriði frumvarpsins sem sum hver eru ekki síður mikilvæg jafnt fyrir einstaklinga sem fyrirtæki.

Fyrst ber að nefna breytingar á skattskyldu við yfirfærslu á einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag. Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verið að færa eigur einstaklings í atvinnurekstri yfir í einkahlutafélag án þess að yfirfærslan hafi í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið sjálft. Markmiðið með þessari breytingu er að gera einstaklingum í atvinnurekstri kleift að breyta um rekstrarform án þess að til skattlagningar söluhagnaðar komi. Eingöngu er gert ráð fyrir að hægt sé að breyta einstaklingsrekstri í einkahlutafélag en ekki í hlutafélag eða önnur rekstrarform. Í gildandi lögum er að finna ákvæði er fjalla um sameiningu og skiptingu félaga. Samkvæmt umræddum ákvæðum hefur skipting eða sameining hlutafélaga, samvinnufélaga og sameignarfélaga ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann er lætur eignarhlut sinn í hlutafélagi, samvinnufélagi eða sameignarfélagi af hendi enda séu skilyrði umræddra ákvæða uppfyllt að öðru leyti. Í ljósi þess þykir eðlilegt að einstaklingum sem stundað hafa rekstur í eigin nafni verði heimilt að umbreyta rekstrarforminu og færa reksturinn yfir í einkahlutafélag án þess að til skattskyldu verði stofnað enda er í raun ekki um yfirfærslu eigna að ræða heldur fyrst og fremst umbreytingu á rekstrarformi.

Annað atriði frumvarpsins sem vert er að nefna er skattaleg meðferð samlagsfélaga, samlagshlutafélaga og eigenda þeirra. Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði skýrt á um skattalega meðferð samlagshlutafélaga og samlagsfélaga. Í lögum um tekjuskatt og eignarskatt er ekki að finna ákvæði um þessi félagsform. Hins vegar hefur samlagshlutafélögum verið skipað á bekk með hlutafélögum með tilliti til skattskyldu. Þannig var að finna í eldri lögum ákvæði um skattlagningu samlagshlutafélaga, en með lögum nr. 30/1971 féll það ákvæði niður. Ástæða þess er talin sú að menn hafa á þeim tíma ekki talið félagsform þetta skipta miklu máli þar sem það tíðkaðist lítt hér á landi. Hins vegar er í auknum mæli farið að bera á þessu félagsformi á ný og í ljósi þess er lagt til að kveðið verði skýrt á um skattalega meðferð samlagshlutafélaga og samlagsfélaga. Er í frumvarpinu lagt til að um skattalega meðferð samlagshlutafélaga fari eins og um hlutafélög, þar með talið um skattalega meðferð arðs til eigenda, en samlagsfélaga eins og um sameignarfélög.

Til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og lúta að lækkun á skatthlutfalli lögaðila eru lagðar til breytingar á reiknuðu endurgjaldi.

Markmið með breytingum sem gerðar eru á orðalagi gildandi laga er að leitast við að koma í veg fyrir að hluthafar eða hlutareigendur í fyrirtækjum ákvarði sér laun eða endurgjald langt undir því sem almennt getur talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærileg störf fyrir óskylda eða ótengda aðila. Í frumvarpinu er styrkt sú skattframkvæmd sem verið hefur, að vinna manns í atvinnurekstri lögaðila sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að, verði skattlögð með sambærilegum hætti og vinna hans í eigin rekstri. Ekki þarf að taka fram að þessum ákvæðum er að sjálfsögðu ætlað að koma í veg fyrir að menn færi sér í nyt ný ákvæði laga hér til að misnota þau.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til smávægilegar breytingar á ákvæðum gildandi laga um skattalega meðferð framlags launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda þar sem túlkun gildandi ákvæða, eins og þeim var breytt með lögum nr. 86/2000, hefur valdið erfiðleikum í framkvæmd. Er þar einkum um að ræða annmarka sem lúta að því að forsendur fyrir útreikningum á því hvernig meta skuli áunnin lífeyrisréttindi og þau lífeyrisréttindi sem gert er ráð fyrir að aflað verði til framtíðar, eru óljósar. Því eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæðinu sem miða að því að skýra og auðvelda framkvæmd þess án þess að efnisreglum verði breytt.

Að lokum er rétt að nefna tillögu um gjaldtöku vegna útgáfu bindandi álita í tvísköttunarmálum. Samkvæmt gildandi lögum hefur ríkisskattstjóri heimild til að taka sérstakt gjald fyrir útgáfu bindandi álita, sbr. lög nr. 91/1998. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra verði veitt sams konar gjaldtökuheimild til útgáfu bindandi álita er varða túlkun tvísköttunarsamninga. Er gjaldinu ætlað að standa straum af þeim kostnaði sem fjmrn. hefur af gerð slíkra álita.

[13:45]

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa umfangsmikla og mikilvæga frv. Ég vona að um þetta mál geti orðið góð samstaða hér á Alþingi þótt að sjálfsögðu sé ekki hægt að ætlast til þess að öll pólitísk öfl með sínar mismunandi forsendur geti sameinast um þingmál sem þetta. Þetta mál hefur hins vegar fengið afar vandaða umfjöllun í fjmrn. og á vegum ríkisstjórnarflokkanna á undanförnum mánuðum. Það hefur verið lengi til umfjöllunar og það hefur verið undirbúið í mínu ráðuneyti, m.a. með starfi vinnuhópa og nefnda, í mjög langan tíma. Það er þess vegna rangt að halda því fram að það hafi verið hrist fram úr erminni á tímabilinu 1.--3. október vegna gagnrýni aðila hér innan þings.

Það tókst að halda þessu máli á þeim vettvangi sem til var stofnað, þ.e. innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna, án þess að fréttir bærust af því út um víðan völl eins og stundum gerist, og ég tel að það sé afar mikilvægt. Þetta gerðum við m.a. til þess að koma í veg fyrir óheppileg áhrif slíkra tíðinda á starfsemi fyrirtækja í landinu og á verðbréfamarkaðinn almennt séð eða fjármagnsmarkaðinn allan. Menn verða að hafa það í huga í sambandi við svona mál, enda þótt búið hafi verið að tala almennt um þessar breytingar sem stefnu ríkisstjórnarinnar, að engum hlut er í raun og veru lokið fyrr en öllu er lokið í pakka af þessu tagi. Það er ekkert mál frá fyrr en öll málin eru frá. Frá þessu máli var gengið milli ríkisstjórnarflokkanna fyrir nokkru síðan og ákveðið að hafa kynninguna á því með þeim hætti sem orðið hefur, þ.e. að kynna það opinberlega tveim dögum eftir framlagningu fjárlagafrv. Ég tel að það hafi gefist vel og gefið mjög góða raun og við sjáum á viðbrögðunum á fjármagnsmarkaðnum hvílík ánægja er með þetta mál á þeim vettvangi, og það er vel. Ég hygg að það sé í fyrsta skipti sem slík mælanleg viðbrögð verða við tíðindum af þessu tagi, í það minnsta var met á verðbréfamarkaðnum hvað varðar hækkun á einum degi.

Ég vil líka bæta því við, vegna þess að ýmsir eru eðlilega að velta fyrir sér hvað þetta muni kosta ríkissjóð í krónum talið, að við teljum það mat sem liggur fyrir hér í frv., ef eitthvað er, vanmeta þær tekjur sem ríkissjóður mun hafa af þessu máli í heild sinni og ofáætla hið hugsanlega tekjutap. Ég hef t.d. ekki nefnt það, sem þó er augljóst, að söluhagnaður af ríkisfyrirtækjum þeim sem ætlunin er nú að selja mun að sjálfsögðu vaxa vegna þessara breytinga. Verðmæti fyrirtækjanna mun aukast vegna þess að tekjustreymið í þeim verður meira sem nemur þessum skattbreytingum. Þess vegna er alveg ljóst að ríkissjóður mun hafa verulegan ávinning af auknum söluhagnaði þeirra fyrirtækja sem hér er um að ræða, Landssímans, Landsbankans og Búnaðarbankans, og einfalt mál að nefna ágiskanir um hversu mikið gæti verið þar um að ræða, og það hefur reyndar verið gert hér í þingsalnum af hv. þm. Pétri Blöndal við umræðu um fjárlagafrv. í liðinni viku.

Það eru auðvitað mörg fleiri atriði sem koma við sögu í þessu máli. En menn verða líka að hafa í huga tímasetningarnar á þessum aðgerðum. Fyrsti hluti þeirra kemur til framkvæmda um áramót en stærsti hluti þeirra hefur ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs fyrr en á árinu 2003. Þess vegna verða menn að huga vel að slíkum þáttum, tímasetningunni, þegar menn eru að meta áhrifin af þessu frv.

Ég er hins vegar ekki í vafa um það að sú staðreynd, að samkvæmt þessu frv. mun tekjuskattur fyrirtækja lækka strax um næstu áramót, mun hafa mikil áhrif á hegðun fyrirtækja úti á markaðnum frá og með næstu áramótum og jafnvel fyrr, jafnvel frá og með framlagningu þessa máls hér á Alþingi. Og það er ekki vafi á því að þau áhrif munu öll verða til hins betra, þ.e. í átt til meiri umsvifa, meiri atvinnu, meiri fjárfestingar og framkvæmda og þar með meiri skatttekna þegar fram í sækir. Áhrifin af þessu frv. eru í átt til þess að örva atvinnulífið.

Sumir segja að hækkun tryggingagjaldsins muni verða til þess að draga úr krafti svokallaðra vaxtargreina í iðnaði, sprotafyrirtækja og fleiri þess háttar aðila. Þá verða menn að hafa í huga að mörg slík fyrirtæki hafa á undanförnum árum verið að hasla sér völl, fyrirtæki í íslenskri eigu, ekki hér á Íslandi heldur erlendis, í Lúxemborg, í Danmörku, hér og þar þar sem menn hafa stofnað í kringum þau eignarhaldsfélög. Og vegna hvers er það? Það er vegna þess að menn eru að safna eigin fé inn í þessi fyrirtæki hjá þeim sem hafa trú á framtíðartekjustreymi þeirra og að þau muni verða arðbær og geta borgað tekjuskatt í framtíðinni. Menn eru að safna hlutafé frá slíkum aðilum en vegna núverandi skattkerfis okkar borga menn eignarskatt af slíku innborguðu eigin fé og þess vegna hafa menn verið að koma sér fyrir annars staðar, þó að um sé að ræða íslensk fyrirtæki og íslenska starfsmenn, til þess að losna við þennan eignarskatt.

Og hvað erum við að gera hér með þessum tillögum? Við erum einmitt að koma til móts við slík fyrirtæki með því að lækka eignarskattinn. Og ég sé auðvitað fyrir mér að þetta sé aðeins skref, áfangi í því að leggja hann síðan niður, a.m.k. hvað varðar atvinnureksturinn eins og mörg önnur lönd hafa verið að gera.

Hvað segir þetta okkur þá? Þetta segir okkur náttúrlega að það er ekki hægt að taka eitt atriði út úr þessum pakka og horfa á það einangrað. Það er ekki bara hægt að segja: Tryggingagjaldið getur íþyngt sprota- og vaxtargreinum í nýja hagkerfinu. Það er rétt, það getur gert það. Það er ábyggilega hugsanlegt að finna slík dæmi. En þá verða menn að horfa á hina þættina líka og hugsa með sér: Hvað kemur þarna á móti? Ég tel ekki minnsta vafa á því að það sem kemur á móti er yfirgnæfandi hagstætt og þegar menn taka þennan pakka í heild sinni, horfa á hann með allt atvinnulífið í huga, allan atvinnureksturinn í landinu og þar með hagsmuni allra landsmanna, sé þetta yfirgnæfandi jákvætt.

Ég ætla ekki að bæta frekar við þetta mál, herra forseti, í þessa framsögu. Ég tel að sjálfsögðu að það sé mjög margt í þessu máli sem þarf að skoða í þingnefndinni. Nú skulum við gá að því að við erum hérna með eitthvert flóknasta skattamál á milli handanna sem þingið hefur fengið til meðferðar í mörg ár. Og þess vegna m.a. var lögð áhersla á að geta útbýtt því í Alþingi 3. október en vera ekki með það á síðustu dögum þinghalds fyrir jól. Það var til þess að Alþingi fengi eðlilegan vinnutíma til að fjalla um það en það var líka til þess að allir aðilar úti í þjóðfélaginu sem láta sig þetta varða, og þeir eru margir, hefðu svigrúm og tíma og tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum að og þyrftu ekki að vinna það undir mikilli tímapressu eins og því miður hefur oft verið raunin. Ég tel að þessi vinnubrögð séu til fyrirmyndar. Og ég undrast það ef menn eru að gagnrýna að þetta frv. hafi komið svona snemma fram, en sú athugasemd hefur borist mér til eyrna. Það er auðvitað aukaatriði. Aðalatriðið er núna að þingnefndin setjist yfir það, kalli fram öll sjónarmið sem ástæða er til að hlýða á, gefi mönnum færi á að koma sínum sjónarmiðum að og síðan afgreiðum við þetta mál tímanlega fyrir áramót þannig að allir viti hvar þeir standa í þessum efnum frá og með 1. janúar nk. Og þá mun ekki líða á löngu þar til atvinnufyrirtækin í landinu taka við sér, þá mun ekki líða á löngu þar til umhverfið verður breytt, við getum hætt að hafa áhyggjur af því að missa fyrirtækin okkar úr landi. Við getum frekar farið að huga að því að kalla heim þau sem eru horfin og leita fanga á nýjum vígstöðvum að því er varðar erlend fyrirtæki sem gætu hugsað sér að setjast hérna að með alvöruatvinnustarfsemi.

Þetta er markmiðið með málinu, herra forseti. Það er þess vegna sem við höfum lagt svona mikla vinnu í það og undirbúið það jafn vel og raun ber vitni. Og ég vona svo sannarlega að þetta mál fái hér málefnalega og vandaða umfjöllun þó að ég geri auðvitað ekki kröfu til þess að allir séu sammála hverju einasta atriði sem hér er lagt af stað með. En ég held að stefnan sem er mótuð í frv. sé mjög til framdráttar og heilla íslensku samfélagi.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu og enn fremur til 2. umr.