Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 13:58:30 (260)

2001-10-09 13:58:30# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það var hvorki haft samráð um þessar tillögur við Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Verslunarráðið né aðra slíka aðila. Hins vegar er auðvitað nægt svigrúm til þess eftir að málið er komið fram að fara yfir þetta og ég tel að það sé auðvitað eðlilegt. Og ég fagna því að ASÍ skuli nú hafa birt landsmönnum skoðanir sínar á þessu máli.

Hins vegar verð ég að segja það að ég skil ekki alveg þessa gagnrýni. Hvernig má það vera að hækkun tryggingagjalds, sem á að koma til framkvæmda 1. jan. 2003, geti haft áhrif á það sem menn eru að sýsla í kjaramálunum í byrjun árs 2002? Hvernig má það vera að hækkun tryggingagjalds árið 2003 geti haft þannig áhrif á verðbólguna á árinu 2001 og í janúar eða febrúar 2002? Ég held að þetta standist bara ekki, herra forseti.

Þar að auki er algjörlega ósannað mál og ekki hægt að fullyrða um það að hækkun tryggingagjaldsins muni koma beint fram í verðlaginu. Hvað þá með lækkun tekjuskattsins, hvað þá með lækkun eignarskattsins? Virkar það ekki í hina áttina? Og það eru yfirgnæfandi áhrif.

Þannig að ég held að menn geti ekki fullyrt um þetta en það er sjálfsagt að fara yfir það.