Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 14:07:32 (267)

2001-10-09 14:07:32# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[14:07]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er aðeins einn þáttur úr þessum skattalagapakka sem ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. um, þ.e. áform um að gera fyrirtækjum mögulegt að breyta úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög, sem er fyrst og fremst umbreyting á rekstrarformi eins og hæstv. fjmrh. sagði. En við þessa breytingu tapa sveitarfélögin töluverðum tekjum vegna þess að einstaklingsrekstur borgar hærri skatta og þar af er hluti sveitarfélaga tæplega 12%. Ef við tökum dæmi af fyrirtæki með 5 millj. kr. hagnað þá er sveitarfélagið að tapa 600 þús. kr. af sköttum þessa fyrirtækis sem annars hefði verið í einstaklingsrekstri. Við að gera fyrirtækjum kleift að breyta þessu yfir í einkahlutafélög, sem ég hef ekki á móti, þá tapast þessar 600 þús. kr. af tekjuskattinum sem annars hefði runnið til sveitarfélagsins en ríkið fær áfram sitt.

Hér er að mínu mati, herra forseti, enn einu sinni ráðist á tekjustofna sveitarfélaga. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh. út í þessa skiptingu og hvernig hún verður hugsuð eftir þetta, eftir þær breytingar sem eru boðaðar. Hvernig á að bæta sveitarfélögunum upp þetta tekjutap ef allir sem stunda einstaklingsrekstur í dag breyta rekstrarforminu í einkahlutafélög og fara í 18% tekjuskatt þar sem allt fer til ríkisins en ekkert til sveitarfélaganna?