Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 14:11:32 (270)

2001-10-09 14:11:32# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér er litlu við þetta að bæta. Þetta mál liggur alveg fyrir. Einstaklingsfyrirtæki geta í dag breytt sér yfir í einkahlutafélög. Þá myndast í mörgum tilfellum söluhagnaður sem í dag er skattlagður samkvæmt ákveðnum reglum. Við ætlum að auðvelda mönnum þessa breytingu með því að hætta að skattleggja þennan söluhagnað, sem er í raun ekki nýmyndun tekna og eðlilegt skattandlag í þeim skilningi heldur pappírsbreyting, formbreyting. Þetta hefur gert mörgum manninum erfitt fyrir sem hefur stundað sjálfstæðan atvinnurekstur, t.d. við að draga sig út úr rekstrinum, koma afkomendum sínum inn í reksturinn, selja hann eða gera alls kyns breytingar sem menn vilja gera eftir því sem árin færast yfir þá. Það er kjarni þessa máls.

Að því er varðar sveitarfélögin þá þarf að setjast yfir málið með þeim -- ríkið tapar peningum, sveitarfélögin hugsanlega einhverju -- og skoða hvernig hægt er að meta áhrifin. Þingnefndin gerir það að sjálfsögðu og við munum gera það einnig.