Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 15:27:42 (281)

2001-10-09 15:27:42# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst ein lítil athugasemd. Hv. þm. telur að þessar skattkerfisbreytingar muni ekki leiða til minni tekna fyrir ríkissjóð þegar upp er staðið vegna þess að þær muni hafa í för með sér meiri umsvif. Nú kemur fram í fylgigagni með frv. að gert er ráð fyrir að þessar skattbreytingar muni rýra tekjur ríkissjóðs um rúma 7 milljarða. Hins vegar er gert ráð fyrir tekjum vegna aukinna efnahagsumsvifa sem nemi 3,5 milljörðum, en nettóáhrif þessara skattalækkana verði 3 milljarðar á árinu 2002, 4,1 milljarður 2003, samtals 3,6 milljarðar þegar litið er til þessa tímabils. Ég vil bara vekja athygli á þessu.

Í öðru lagi benti hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson á að Sjálfstfl. og Framsfl. stæðu hér einhuga að baki. Hann fagnaði því að mikil viðbrögð hefðu orðið við frv. og aldrei hefðu þau orðið meiri eða fljótari, sneggri, en með þessu frv. Það er alveg rétt að mjög var fagnað á fjármagnsmarkaði þegar skattafrv. hæstv. fjmrh. Geirs H. Haardes var lagt fram. En það komu líka fram viðbrögð frá öðrum aðilum, í gær frá Alþýðusambandi Íslands og áður frá Öryrkjabandalagi Íslands. Þar eru þessar breytingar harðlega fordæmdar.

Ég leyfi mér einnig, herra forseti, að draga stórlega í efa að það standist að þessar skattkerfisbreytingar muni stuðla að aukinni velmegun eins og hv. þm. lagði áherslu á. Þær munu a.m.k. ekki gera það fyrir öryrkja, þær breyta engu um kjör þeirra. Ég efast líka um að þessar skattkerfisbreytingar muni efla atvinnu í landinu og að þær byggi á raunsæi. Hér hafa verið færð rök fyrir hinu gagnstæða. Ég óska eftir að heyra rökstuðning hv. þm. fyrir skoðunum hans.