Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 15:45:17 (293)

2001-10-09 15:45:17# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Loksins, loksins sjáum fyrir okkur lækkun á sköttum.

Við höfum búið við mjög hækkandi laun undanfarin svona sjö árin, sem aldrei fyrr. Það er að sjálfsögðu afleiðing af því að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa markvisst verið að lækka álögur á atvinnulífið. Það hefur getað borgað hærri laun. Við þetta hafa skattar hækkað langt umfram hækkun launa vegna þess hvernig tekjuskatturinn er uppbyggður.

Fasteignaverð hefur sömuleiðis hækkað í takt við launahækkanir. Það er þekkt fyrirbæri og þar með hafa eignarskattar líka hækkað umfram laun þar sem öll frítekjumörk og fríeignamörk hafa hækkað eins og verðlag. Þetta hefur valdið því að tekjur ríkissjóðs hafa hækkað langt umfram verðlag og laun og þá hefur verið svigrúm til að bæta úr ýmsu í velferðarkerfinu. Þar hafa bætur verið hækkaðar umfram verðlag. Þar hafa menn brugðist við dómum með umtalsverðum greiðslum til örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega. Menn hafa stórhækkað laun opinberra starfsmanna og það sem kannski er verst er að verðmæti lífeyrisréttar þeirra hefur stórhækkað. Hann hefur hækkað um 100 milljarða eða meira en sem nemur verðmæti Landssímans, Búnaðarbankans og Landsbankans á síðustu fimm árum.

Nú loksins eiga skattgreiðendur að fá smávegis af þessari köku, ekki mikið, lítið, en smávegis og það er spor í rétta átt.

Varðandi ræðumennsku hv. stjórnarandstæðinga þá finnst mér hún vera þannig að þeir séu frekar uppteknir af því að skipta þjóðarkökunni en að stækka hana. Ég vil miklu frekar sjá þjóðarkökuna stækka þannig að allir fái meira heldur en að vera sífellt upptekinn af því að minnka hana með því að skipta henni og skipta.

Herra forseti. Loksins er eignarskatturinn lækkaður, eignarskatturinn sem hindrar sparnað. Það fólk sem með ráðdeild og sparnaði neitar sér um jeppa og utanlandsferðir og hefur nurlað saman smáfé, sem þótti einu sinni dyggð, jafnvel hjá bændum, herra forseti, og fulltrúum bænda, varð áskrifandi að eignarskatti til ríkisins. Sá maður sem náði 1 millj. umfram eignarskattsmörkin varð áskrifandi að 14.500 kr. á ári í skatt, ævilangt og alla tíð. Það varð til þess að fjöldi manns nennti ekkert að spara og fór að kaupa jeppa eins og hinir og eyða í utanlandsferðir.

Eignarskatturinn er hemill á sparnað. Og nú á að lækka hann um helming.

Svo er auk þess felldur niður þjóðarbókhlöðuskatturinn sem var einu sinni settur á til að byggja þjóðarbókhlöðu. Það er löngu búið að því. Hún er löngu risin, komin í fullan rekstur. En skatturinn hefur af einhverjum ástæðum alltaf gleymst. Nú á að fella hann niður, loksins.

Fjöldi eldri borgara býr í eigin húsnæði og er að bisa við að borga eignarskatta af lágum tekjum og spara ríkinu stórfé meðan þeir fara ekki inn á stofnanir þess. Þessu fólki hefur verið refsað, refsað fyrir að reyna að halda út í eigin húsnæði. Nú á að minnka þessar álögur sem betur fer og mættu þær falla alveg niður mín vegna.

Herra forseti. Loksins, loksins. Tekju- og eignarskattar fyrirtækja eru lækkaðir. Við höfum séð í auknum mæli í kjölfar alþjóðavæðingar blómleg fyrirtæki fara úr landi með hagnaðinn, bara hagnaðinn þangað sem tekjuskattar eru lægri og eignarskattar, þangað sem eignamyndun borgar sig í fyrirtækjum. Eignarskattar fyrirtækja eru nánast hvergi til nema á Íslandi. Nú er þessi skattur lækkaður niður í 18% og það mun verða til þess að fyrirtækin fara ekki úr landi og hugsanlega koma einhver fyrirtæki til landsins.

Ég hef reyndar reiknað út, og benti á það í umræðu um fjárlagafrv. um daginn, að ríkissjóður er að selja 68 milljarða af eignum sínum, þ.e. Landssímann, Búnaðarbankann og Landsbankann, og skattalækkun á fyrirtækjum, þ.e. ef hluthafinn sér 82% standa eftir af hagnaðinum í staðinn fyrir 70% áður, þýðir að hann sér 17% meira standa eftir en áður.

Miðað við hvernig fyrirtæki eru verðmetin á markaði, þar sem litið er til framtíðartekjustrauma, þá eiga af þessari aðgerð einni saman hlutabréf að hækka um 17%. Þessi eina aðgerð á að hækka hlutabréf um 17%. Þar á meðal hlutabréf í þessum fyrirtækjum sem ríkissjóður er að selja. Það þýðir 12 milljarða, herra forseti, 12 milljarða í hækkun á verði til ríkissjóðs.

Þetta vita þeir sem hafa stundað verðbréfaviðskipti, svo sem eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hann þekkir að sjálfsögðu þessi fræði öllsömul. (Gripið fram í: Mesti verðbréfa...) Hann er mesti verðbréfamiðlari þingsins. (SJS: En ræðumaður? Hvernig er með hann?) Ég sjálfur er löngu hættur þessu. (ÖJ: Það er bara prívat.) (SJS: Já, já.) (ÖJ: Það er nú allt annað.)

Ef skatturinn yrði lækkaður enn frekar, niður í 10%, þá mundi ríkissjóður græða enn meir. (SJS: En 0%?) 0%? Þá mundi hann græða mest (SJS: Já.) á næstu þrem árum, herra forseti, því hann fórnar náttúrlega einhverju til líka. (SJS: Neikvæð hækkun.) (Gripið fram í: Hækkar verðið á Símanum ...) (Forseti hringir.)

(Forseti (GuðjG): Forseti biður þingmenn að leyfa ræðumanni að flytja mál sitt í friði.)

Ég legg því til að hv. efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar leggist alvarlega yfir það með það í huga að afla fjár til velferðarkerfisins, að lækka þennan skatt niður í 10% og slá met í tekjusköttun fyrirtækja niður á við þannig að við fáum hingað fjöldann allan af fyrirtækjum erlendis frá. Það yrði mjög jákvætt.

Herra forseti. Lagt er til að hækka hátekjumörk. Það er bara til að mæta hækkun á launum og dugar varla til þannig að maður getur nú bara svona kinkað kolli yfir því. Auðvitað á að fella þennan skatt niður. (ÖJ: Hvað með skattleysismörkin?)

Síðan er lagt til að hækka eignarskattsmörk til að mæta hækkun á fasteignaverði. Það er líka aðgerð til að bregðast við gífurlegri hækkun á fasteignaverði. Það kemur reyndar þannig út að þeir sem skulda mikið njóta þess ekki en hinir sem skulda lítið njóta þess mikið og er þá loksins farið að verðlauna fólk fyrir ráðdeild, þ.e. að skulda lítið.

Herra forseti. Líka er lagt til að hætta að vera með verðbólgureikningsskil. Þau eru á margan hátt og alla vegana réttlátari en reikningsskil sem tíðkast erlendis og víðast hvar. Vegna samanburðar við útlönd get ég fallist á þessa aðgerð. En hún er ekki eins réttlát. Hún t.d. gerir það að verkum að fyrirtæki sem er skuldsett --- og þar hefur verðbréfamarkaðurinn komið með vitlausa útleggingu eða það sem við höfum heyrt frá þeim --- skuldsett fyrirtæki hafa fengið tekjufærslu vegna þess að talið er að þau hafi hagnast á skuldunum vegna verðbólgu. Og það gera þau.

Nú á að hætta að koma með þessa tekjufærslu. Ekkert breytist í rekstrinum. Það eina sem gerist er að reksturinn sýnir lakari niðurstöðu. Hann sýnir lakari niðurstöðu vegna þess að tekjufærslan fellur niður og tekjuskattar þessara fyrirtækja lækka þar af leiðandi. Það eina sem breytist er að það sýnist vera lakari niðurstaða og tekjuskatturinn lækkar á fyrirtæki sem skulda. Á fyrirtæki sem skulda. Hjá hinum sem eru með peningalegar eignir hefur verið reiknað með gjaldfærslu af sömu ástæðu og þau munu sýnast hafa betri stöðu og borga hærri skatta. En ég felst á þetta vegna þess að þarna er verið að aðlaga reikningsskil okkar erlendri reglu og það er jákvætt.

Herra forseti. Það sem ég tel ekki vera jákvætt í þessu frv. er skattfrelsi húsaleigubóta. Þær voru ákveðnar á sínum tíma þetta háar sem þær nú eru vegna þess að þær voru skattlagðar. Þær hefðu verið ákveðnar lægri, eins og vaxtabætur, ef þær hefðu verið skattfrjálsar. Og þetta kemur líka þannig út að þetta skattfrelsi kemur því fólki sem borgar enga skatta hvort sem er ekki til góða. Það kemur eingöngu þeim til góða sem borga skatta og þar af leiðandi sumu fólki með dágóðar tekjur. Einstaklingur sem er t.d. með 133 þús. kr. í tekjur fær óskertar húsaleigubætur í dag og hann fengi þær skattfrjálsar núna þó hann sé með þetta háar tekjur, bara fyrir sjálfan sig.

Þá hef ég að sjálfsögðu einnig athugasemdir við tryggingagjaldið. Það er skattur á laun, en um leið er það krafa um arðsemi í fyrirtækjunum. Tryggingagjaldið verður hækkað um sem nemur einum starfsmanni af 130, þ.e. fyrirtæki sem er með 130 starfsmenn þurfa að hagræða um einn starfsmann á heilu ári og þætti nú ekki mikið. En það er greinilegt að ASÍ reiknar ekki með því að íslensk fyrirtæki séu hæf til að hagræða yfirleitt nokkurn skapaðan hlut heldur velti öllu út í verðlagið ef þau geti, það sé engin samkeppni neins staðar og þau geti velt þessari litlu hagræðingu út í verðlagið. Það er merkilegt að gert sé yfirleitt ráð fyrir því að einhver hagvöxtur sé á Íslandi.

Herra forseti. Hér hefur nokkuð verið vitnað í afstöðu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, formanns efh.- og viðskn., og ummæli hans rangtúlkuð. Hann segir nefnilega, með leyfi herra forseta: ,,Það eru afar litlar líkur á því að þessum skattapakka verði breytt.`` (Gripið fram í: Afar litlar!) Afar litlar, en samt líkur. Þó það séu ekki nema 1% líkur þá eru það líkur, enda hefur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson ekkert með það að gera hvað hv. Alþingi tekur ákvörðun um frekar en hæstv. fjmrh. Hann hefur heldur ekkert um það að segja. Hv. Alþingi tekur þá ákvörðun sem það vill, burt séð frá vilja hæstv. fjmrh. eða vilja formanna einstakra hv. nefnda. (Gripið fram í.) (ÖJ: Nú talar hann af eigin reynslu úr nefnd.)

Þessi ummæli hafa verið mistúlkuð í umræðunni og vildi ég gjarnan leiðrétta það.

Þá er líka loforð, sem ekki kemur reyndar fram í þessum pakka, sem ég get líka sagt um: Loksins, loksins. Það er lækkun á stimpilgjaldi sem hefur verið boðað. Ég hef heyrt mjög marga þingmenn, líka stjórnarandstöðuþingmenn, lýsa því yfir að þeir séu fylgjandi því að lækka stimpilgjaldið. Vil ég nú skora á þingmenn alla vegna þess hvað þetta er vitlaus skattur að þegar það frv. kemur fram þá bara ákveði þeir að fella það alveg niður eða fella það niður í þá veru að eingöngu þinglýsingarskjöl verði stimpluð. Þessi skattur er óskaplega dýr í framkvæmd og hamlar öllu atvinnulífinu og meira að segja Seðlabanki Íslands fer í kringum þessi lög með því að búa til endurhverf verðbréfaviðskipti, svokölluð endurhverf verðbréfaviðskipti. Með þeim er Seðlabankinn að fara í kringum þessi lög með því að nota sömu skuldapappírana aftur og aftur og borga stimpilgjaldið bara einu sinni vegna þess að þessi skattur gerir skammtímafjármögnun gjörsamlega ómögulega eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson þekkir sem sérfræðingur á þessu sviði, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hann veit náttúrlega að stimpilgjald á skammtímapappíra eyðileggur alla möguleika á fjármögnun.

Herra forseti. Ég fagna þessum tillögum. Ég vona að hæstv. fjmrh. haldi áfram á þessari braut og felli niður sumt af þessu eins og eignarskattinn á fyrirtæki, lækki tekjuskatta fyrirtækja enn frekar í ljósi þess að hann græðir á því með því að hækka verðið á þeim fyrirtækjum sem hann ætlar að einkavæða og mun einkavæða í framtíðinni, því það er hellingur eftir.