Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:01:15 (295)

2001-10-09 16:01:15# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekki að ég vildi enga skatta. Ég vil skynsamlega skatta. Ég vil skatta sem ekki drepa skattstofninn, ekki drepa atvinnulífið, ekki drepa það í dróma heldur lætur það lifna og dafna, láta frumkvæði fyrirtækja dafna og láta fyrirtækin skila hagnaði. Ég geri kröfu til þess, herra forseti, að fyrirtækin skili hagnaði. Því vil ég benda hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem hefur nú rekið fyrirtæki, á það að fyrirtæki eiga að skila hagnaði.

Varðandi kjaradeilu sjúkraliða, þá ætla ég ekki að blanda mér í þá deilu. Ég þekki ekki launakjör sjúkraliða út í hörgul. Ég veit ekki hvað er borgað í vaktaálag og ég þekki ekki þau laun út í hörgul. En launakjör ríkisstarfsmanna hafa hækkað umtalsvert, miklu meira en laun á almennum markaði í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar. Það er því ekki rétt að þau hafi ekki hækkað. Þau hafa hækkað umtalsvert og lífeyrisskuldbindingarnar hafa hækkað um 100 milljarða kr. á síðustu fimm árum. Það er meira en Landssíminn, Landsbankinn og Búnaðarbankinn seljast á.

Hvað varðar viðskiptahallann, þá hef ég margbent á hættuna af því hve hann er orðinn mikill. Ég hef margbent á það og viljað grípa til ráðstafana, t.d. lækkun á eignarskatti sem örvar sparnað, lækkun á stimpilgjaldi og öðrum eignatengdum gjöldum sem ... (ÖS: Þú hefur ekki gert það í þessum sölum.) Víst hef ég gert það hérna. Ég hef margoft bent á það hve viðskiptahallinn er mikill og það hefur verið samþykkt þáltill. frá mér um að ríkisstjórnin eigi að finna leiðir til að ná niður, skuldum íslensku þjóðarinnar, fyrir árið 2015 og ná þeim niður í núll.