Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:04:26 (297)

2001-10-09 16:04:26# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tók einmitt fram að ég þekkti ekki kjör sjúkraliða. Ég tók það fram, ég var ekki að fullyrða eitt eða neitt. (Gripið fram í.) Ég sagði að tekjur ríkisstarfsmanna almennt hefðu hækkað mikið og þetta er víst í eina stéttin eða ein af fáum sem á eftir að semja við. (ÖJ: Hafa þær hækkað nóg?) Ja, það veit ég ekki, mér sýnist að lífeyrisskuldbindingarnar hafi hækkað alveg nóg eða um 100 milljarða sem eru um 5 millj. á hvern einasta ríkisstarfsmann sem verðmætið hefur hækkað. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að ræða við hv. þm.

(Forseti (GuðjG): Gæti hv. þm. fengið að flytja ræðu sína í friði fyrir stanslausum frammíköllum.)

Hátekjuskatturinn er hemill á dugnað og frumkvæði og ég vil benda á að einstaka örorkulífeyrisþegi borgar hátekjuskatt. Það eru til sjómenn sem eru með örorkulífeyri og eru yfir þessum mörkum. (Gripið fram í.)

(Forseti (GuðjG): Forseti verður að minna á að ekki er ætlast til að stunduð séu samtöl hér úr ræðustól Alþingis.)