Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:11:18 (302)

2001-10-09 16:11:18# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það með hv. þm. sem hann sagði um stimpilgjaldið. Ég tel að menn eigi að skoða það mjög vandlega að fella það að sem mestu leyti niður.

Mig langar til að spyrja hv. þm. hvort hann hafi engar áhyggjur af því hve mikill mismunur myndast á milli almennrar skattlagningar og þeirrar skattlagningar sem verður á lítil fyrirtæki þegar það liggur fyrir og menn hafa borið það vel saman, að fyrir þessa breytingu var tiltölulega lítill munur á því hvað menn borguðu í skatta eftir því hvort þeir tóku það út úr fyrirtækjunum eða greiddu með launum sínum, en með þessu verður meira en helmingsmismunur á skattinum. Það er alveg klárt mál að mínu viti að það mun kalla meira og meira á að farið verði að flytja einkaneysluna inn í einkahlutafélögin.

Ég tók eftir því að hv. þm. nefndi tryggingagjaldið ekki neitt í ræðu sinni. (PHB: Jú.) Það hefur þá farið fram hjá mér og ég bið afsökunar á því ef svo hefur verið. En ég vil segja að eins og þessi tillaga liggur fyrir, þá lenda miklu fleiri fyrirtæki í landinu í því að fara illa út úr sköttum eða verr út úr sköttum en þau hafa gert heldur en hin sem fá hagnað af þessum breytingum einfaldlega vegna þess að býsna stór hluti fyrirtækja og alveg sérstaklega á landsbyggðinni eru ekki gerð upp með hagnaði. Það liggur því alveg á ljósu að þarna verða mjög margir sem þurfa að fara að borga meira og það eru fyrirtækin sem standa verst. Ekki eru menn að hjálpa atvinnulífinu, með því, hv. þm.? Er það?